Sport

Klúðraði gullgreininni sinni: „Ég er enn í á­falli“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jutta Leerdam var skiljanlega svekkt eftir fallið í undankeppni Ólympíuleikanna.
Jutta Leerdam var skiljanlega svekkt eftir fallið í undankeppni Ólympíuleikanna. Getty/Henk Jan Dijks

Þetta voru ekki góð jól fyrir Jake Paul og kærustu hans Juttu Leerdam. Jake Paul kjálkabrotnaði í tapi í hnefaleikabardaga á móti Anthony Joshua og Leerdam mistókst að tryggja sér inn á Ólympíuleikana í sinni bestu grein.

Leerdam er einn besti skautahlaupari heims og hennar besta grein er 1000 metra skautahlaup.

Leerdam er ríkjandi heimsmeistari í greininni og vann einnig silfur í greininni á síðustu Ólympíuleikum í Peking. Hún hefur einnig orðið Evrópumeistari.

Það lítur hins vegar út fyrir að heimsmeistarinn og silfurhafinn fái ekki tækifæri til að ná gullinu á Ólympíuleikunum í Mílanó og Coritina í febrúar.

Féll í brautinni

Leerdam klúðraði gullgreininni sinni í hollensku undankeppninni fyrir Ólympíuleikana.

Leerdam komst aldrei í mark því hún féll í brautinni og var úr leik.

Jake Paul sendi kærustu sinni baráttukveðjur og hún hefur nú tjáð sig um vonbrigðin inni á samfélagsmiðlum. Þar kemur fram að hún sé ekki búin að gefa upp vonina um að fá að keppa í sinni bestu grein.

Til að svo yrði þá þyrfti hollenska Ólympíunefndin að gera undanþágu hennar vegna.

„Ég mun að öllum líkindum keppa á Ólympíuleikunum í Mílanó í 500 metra skautahlaupi. Mjög óheppilegt atvik átti sér stað í minni bestu grein, 1000 metrunum, á föstudaginn,“ skrifaði Jutta Leerdam.

„Nú bíðum við og vonum“

Núna bíðum við og vonum að ég fái tækifæri til að skauta vegalengdina sem ég hef unnið mörg heimsbikargull í á þessu tímabili,“ skrifaði Leerdam.

„Ég er enn í áfalli en ég hef aldrei fengið svona flóð af skilaboðum áður. Ég finn svo mikið fyrir stuðningi allra og er mjög þakklát fyrir það. Ég les allt og kann að meta það meira en þið gerið ykkur grein fyrir,“ skrifaði Leerdam en hún hefur fengið fjölda skilaboða og kveðja úr öllum áttum.

Leerdam er með 4,8 milljón fylgjendur á samfélagsmiðlum og yfir hundrað og tuttugu þúsund manns hafa líkað við færslu hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×