Körfubolti

Mesta á­horfið á jólaleiki NBA í fimm­tán ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benny the Bull, lukkudýr Chicago Bulls, í jólabúning og færandi stuðningsmönnum gjafir. NBA-deildin fékk góða jólagjöf frá áhorfendum þessi jólin.
Benny the Bull, lukkudýr Chicago Bulls, í jólabúning og færandi stuðningsmönnum gjafir. NBA-deildin fékk góða jólagjöf frá áhorfendum þessi jólin. Getty/Justin Casterline

Þetta voru góð jól fyrir NBA-deildina í körfubolta þegar kemur að áhorfi á jólaleiki deildarinnar.

Deildin gaf út áhorfendatölurnar sínar í gær og þær líta mjög vel út enda þvert gegn þeirri þróun sem hefur verið undanfarin ár.

Meira en 47 milljónir manna í Bandaríkjunum horfðu á að minnsta kosti hluta af leikjadagskránni á jóladag sem samanstóð af fimm leikjum á ABC og ESPN-stöðvunum, sem er 45 prósenta aukning frá síðasta ári.

NBA-deildin hefur fengið meiri samkeppni frá NFL-deildinni síðustu ár og situr ekki lengur ein að kjötkötlunum.

Að meðaltali voru 5,5 milljónir áhorfenda á leikjunum í NBA, sem er fjögurra prósenta aukning frá því fyrir ári síðan.

Leikur Cleveland og New York var mest sótti jóladagsleikurinn frá upphafi meðal hádegisleikjanna með að meðaltali 6,4 milljónir áhorfenda. Leikur San Antonio og Oklahoma City var sá mest sótti í tímarammanum hálfþrjú á jóladag síðan 2017 og leikur Dallas og Golden State var sá mest sótti í klukkan fimm tímarammanum á hátíðardeginum síðan árið 2019.

NBA-deildin sagði líka frá því að hún hefði verið mest skoðaða vörumerkið á samfélagsmiðlum á jóladag, en efni hennar skilaði 1,6 milljörðum áhorfa, samkvæmt Videocites. Það er 23 prósenta aukning frá jólunum 2024.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×