Körfubolti

Tvíbura­systurnar ó­vænt hættar

Sindri Sverrisson skrifar
Anna Lilja og Lára Ösp hafa ákveðið að láta gott heita hjá Njarðvík.
Anna Lilja og Lára Ösp hafa ákveðið að láta gott heita hjá Njarðvík. UMFN

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur tilkynnti óvænt í dag, fyrir toppslaginn við KR í Bónus-deildinni í kvöld, að tvíburasysturnar Anna Lilja og Lára Ösp Ásgeirsdætur væru hættar.

Samkvæmt tilkynningunni eru systurnar ekki bara hættar hjá Njarðvík heldur hafa þær lagt körfuboltaskóna á hilluna, aðeins 23 ára gamlar. Báðar hafa þær leikið vel yfir hundrað leiki fyrir Njarðvík í efstu deild.

Systurnar tóku sína ákvörðun í sátt og samlyndi við stjórn og þjálfarateymi Njarðvíkur, af persónulegum ástæðum.

„Anna og Lára eru frábærir félagsmenn og stórkostlegir liðsmenn. Anna á sérstaklega mikið hrós skilið fyrir að hafa dugað svona lengi miðað við erfiða meiðslasögu sem leikmaður. Aðgerðir og fleira settu strik í reikning hennar en að mati þeirra beggja var nú kominn tími til að loka þessum körfuboltakafla hjá sér,“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur.

Systurnar urðu bikarmeistarar í mars. Anna Lilja er hér fyrir miðju og Lára Ösp lengst til hægri af leikmönnum Njarðvíkurliðsins, eftir sigurinn á Grindavík í bikarúrslitaleiknum.vísir/Hulda Margrét

Anna og Lára léku upp alla yngri flokkana í Njarðvík og urðu þar meðal annars Íslandsmeistarar. Þær léku einnig með Njarðvík í 1. deild kvenna, þá á grunnskólaaldri, og fóru upp um deild með liðinu. Síðar fögnuðu þær Íslandsmeistaratitli með Njarðvík og svo bikarmeistaratitlinum á síðustu leiktíð.

Þá eiga þær einnig báðar landsleiki að baki með yngri landsliðum Íslands.

Anna Lilja lék 132 leiki með Njarðvík í deild og úrslitakeppni í úrvalsdeild kvenna, og Lára Ösp á að baki aðeins færri leiki eða 112 eftir að hafa dvalið um hríð í Bandaríkjunum við nám.

Í tilkynningu Njarðvíkinga er systrunum þakkað fyrir öflugt framlag í gegnum árin, bæði innan og utan vallar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×