Árið 2025 breyttist allt, en samt gerðist einhvern veginn ekkert. Bandaríkin hækkuðu tolla í hæsta stig í næstum heila öld, Kína svaraði í sömu mynt og óvissa um þróun alþjóðamála jókst. Samt sem áður er spáð 3,2% hagvexti í heiminum, nákvæmlega það sem búist var við ári áður en óvissan raungerðist. Það væru þó mistök að halda að heimshagkerfið muni ekki líði fyrir tollatogstreitu og stefnuóreiðu.
Við höfum séð þessa mynd áður. Efnahagsleg áhrif Brexit voru til að byrja með lítil þrátt fyrir mikla óvissu. En áratug síðar er áætlað að Bretland hafi tapað á bilinu 6 til 8% af landsframleiðslu miðað við þróunina fyrir Brexit. Lærdómurinn er einfaldur – hið kerfislæga tjón kemur hægt fram og þá er alltaf of seint að bregðast við.
Hvers vegna hefur heimurinn þá ekki fundið fyrir áhrifum tolla enn sem komið er? Svarið er að hluta til að rauntollar eru um það bil helmingur af því sem Bandaríkin tilkynntu, þökk sé fjölmörgum undanþágum. Þeir eru engu að síður 14 prósent, sem er mikil aukning, en á móti komu til tveir þættir sem minnkuðu neikvæðu áhrifin. Í fyrsta lagi hafa útgjöld vegna gervigreindar og verðhækkun hlutabréfamarkaðarins, knúin áfram af bjartsýni vegna gervigreindar, stutt við vöxt í Bandaríkjunum og haft jákvæð áhrif á hagkerfi eins og Taívan og Suður-Kóreu sem flytja út vörur tengdar gervigreind. Í öðru lagi hafa ríkisútgjöld aukist meira en búist var við, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur jafnvel enn frekar í Þýskalandi og Kína. Áhrif bandarískra tolla og hefndaraðgerðir Kínverja eru enn í skuggavarpi þessara krafta og árið 2025 leit út fyrir að vera stöðugra en það í raun var.
Á sama tíma er hin rómaða „seigla“ gagnvart tollum afar villandi. Tollar hafa verið kostnaðarsamir, sérstaklega fyrir Bandaríkjamenn.
Heimshagkerfið er viðkvæmara en fyrirsagnir gefa til kynna og þar er einkum ástæða til staldra við þegar kemur að gervigreindinni. Fjárfestar eru byrjaðir að efast um að himinhátt virðismat á gervigreind skili viðunandi ávöxtun. Það er þegar byrjað að refsa fyrirtækjum eins og Meta, sem hefur boðað mikla aukningu í fjárfestingum í gervigreind án samsvarandi tekjustrauma. Meta er ekki það eina, önnur fyrirtæki í sama geira standa frami fyrir sömu áskorunum og fyrirséð er að áskriftargjöldin verða að hækka. Tuttugu dollarar á mánuði munu ekki standa straum af kostnaði hvað þá heldur að fjármagna innviðakapphlaupið sem tækninni fylgir.
Þetta er ekki fullyrðing um möguleika gervigreindar, sem verður líklega umbreytandi. Þetta er fullyrðing um nauðsynlega arðsemi eigi hún að vera sjálfbær. Bæði sýnilegur og dulinn samkeppnisþrýstingur eykur raunverulega hætta á leiðréttingu í anda netbólunnar.
Á sama tíma er hin rómaða „seigla“ gagnvart tollum afar villandi. Tollar hafa verið kostnaðarsamir, sérstaklega fyrir Bandaríkjamenn. Liðlega 95 prósent af kostnaðinum sem fellur til vegna tollanna er greiddur af bandarískum fyrirtækjum og aðeins hluti þeirra hefur verið færður yfir á neytendur. Þetta skiptir máli þar sem tollar einir og sér hafa aukið verðbólgu um 0,7 prósentustig. Án þeirra hefði verðbólga getað verið við 2% markmið Seðlabankans. Í staðinn hafa tollar gert dæmigert bandarískt heimili um 600 dollurum fátækara.
Skaðinn af völdum tolla mun verða sýnilegri árið 2026 þar sem áhrif á innflutning fyrirframgreiddrar vöru fara þverrandi og fyrirtæki munu velta hærri hluta kostnaðarins yfir á neytendur.
Ef við bregðumst ekki við munu lífskjör alls staðar versna og sú eigingjarna stefna sem nýtur vinsælda í dag verður óvinsæl á morgun. En þá gæti það verið of seint.
Kína þarf einnig að horfast í augu við raunveruleikann. Áframhaldandi áhersla á útflutningsdrifin hagvöxt er ósjálfbær og hin nýja fimm ára áætlun ráðamanna í Peking, sem forgangsraðar fjárfestingu í þágu tæknigeirans frekar en að styrkja félagsleg öryggisnet og auka neyslu, mun auka áhættuna á kerfislægum óstöðugleika.
Evrópa vægir eins og sá sem vitið hefur, með því að standa vörð um hið reglusetta alþjóðakerfi en verður engu að síður að ráðast í innri umbætur. ESB verður að dýpka innri markaðinn, auka framleiðni og gera sig aðlaðandi fyrir alþjóðlegt fjármagn í leita að áhættudreifingu.
Bandaríkin eru ekki beint að hjálpa Evrópu. Að óvinavæða sinn stærsta efnahagslega bandamann er slæm stefna. Þó ekkert stórkostlegt gerist á einni nóttu, þá reyna Evrópubúar hljóðlega og smám saman að losa sig við bandaríska fjármálainnviði og vantreysta orðið Visa og Mastercard. Fyrir aðeins einu ári síðan hefði það talist óhugsandi.
Raunin er sú að 2025 var árið þar sem allt breyttist. Spurningin er hvort 2026 verði árið sem við leiðréttum stefnuna. Það eru tækifæri til þess. Bandaríkin eru með formennsku í G20 og Frakkland í G7. Saman geta þau hvatt til aðgerða til að endurheimta stöðugleika á tímum mikillar óvissu og sundrungar í alþjóðakerfinu
Ef við bregðumst ekki við munu lífskjör alls staðar versna og sú eigingjarna stefna sem nýtur vinsælda í dag verður óvinsæl á morgun. En þá gæti það verið of seint.
Lausleg þýðing á grein Gitu Gobinath sem birtist í Financial Times 7. janúar síðastliðinn.
Höfundur er Gregory and Ania Coffey prófessor í hagfræði við Harvard háskóla og var áður aðstoðarframkvæmdastjóri og aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.