Körfubolti

Ljós­myndari pompaði á rassinn eftir öskur Kane

Sindri Sverrisson skrifar
Greyið ljósmyndarinn ætlaði eflaust bara að fara að mynda lokaaugnablik leiksins þegar sæti hans gaf sig.
Greyið ljósmyndarinn ætlaði eflaust bara að fara að mynda lokaaugnablik leiksins þegar sæti hans gaf sig. Skjáskot/Sýn Sport

Sérfræðingarnir í Bónus Körfuboltakvöldi bentu á athyglisverða truflun frá DeAndre Kane á ögurstundu í leik ÍA og Grindavíkur en talið barst þó fljótt að óheppnum ljósmyndara í salnum.

ÍA og Grindavík mættust í æsispennandi leik í síðustu umferð Bónus-deildarinnar þar sem Grindvíkingar höfðu þó að lokum betur.

Kómísk lokaandartök leiksins voru rædd í Körfuboltakvöldi eins og sjá má í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Kane öskraði á Styrmi og ljósmyndari féll

Styrmir Jónasson fékk þriggja stiga skot til að jafna metin fyrir ÍA, þegar örfáar sekúndur voru eftir af leiknum, og var Kane þá kominn af velli en stóð nálægt Styrmi. Bandaríkjamaðurinn sást þá kalla eitthvað, til að trufla Styrmi, og hvort sem það virkaði eða ekki þá fór skotið ekki ofan í og Grindavík fagnaði sigri.

„Ég er hundrað prósent á að þetta megi ekki en ég hef aldrei séð dæmt á þetta,“ sagði Ómar Örn Sævarsson í Körfuboltakvöldi.

Sérfræðingarnir gátu þó ekki staldrað lengi við öskur Kane því í sömu andrá varð ljósmyndari á leiknum fyrir því óláni að sæti hans hrökk hreinlega undan honum, svo að hann pompaði beint á rassinn. Þessu gátu menn ekki annað en hlegið af

„Þú hélst mögulega að þú myndir sleppa með þetta karlinn minn… niiii,“ mælti Stefán Árni Pálsson léttur til ljósmyndarans í góðri trú um að honum hefði nú ekki orðið meint af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×