Skoðun

At­vinna handa öllum

Vilhjálmur Árnason skrifar

Atvinnuleysi á Suðurnesjum mælist nú 8,9%, samkvæmt Vinnumálastofnun, og er hlutfallslega tvöfalt meira en víðast annars staðar á landinu. Þetta eru alvarlegar tölur og á bak við þær eru raunverulegar sögur fólks sem vill vinna, fjölskyldna sem lifa í óvissu og ungs fólks sem spyr sig hvort framtíðin sé annars staðar en heima.

Þessi staða er ekki ásættanleg og við ætlum ekki að leyfa henni að viðgangast.

Uppi á vegg hjá mér hangir gamalt slagorð Sjálfstæðisflokksins: Atvinna handa öllum. Það slagorð er ekki minnisvarði um liðna tíð heldur verkefni dagsins í dag og það er verkefni sem ég og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ ætlum að leysa.

Suðurnesin eru eitt öflugasta atvinnusvæði landsins og hér eru tækifæri sem fá önnur svæði búa við. Við höfum víðáttumikil landsvæði sem bíða uppbyggingar, sterkt vinnuafl með reynslu og metnað, alþjóðaflugvöll sem tengir okkur beint við umheiminn og stórskipahöfn í Helguvík sem getur orðið lykill að nýjum störfum í útflutningi og verðmætasköpun.

Þetta eru staðreyndir, þrátt fyrir að illa hafi tekist að markaðssetja þessi ótrúlegu tækifæri.

Vandinn er ekki skortur á tækifærum heldur skortur á skýrri og ákveðinni forystu sem nýtir þau. Sveitarfélög sem ná árangri í atvinnumálum bíða ekki eftir því að „eitthvað gerist“. Þau sækja fyrirtækin, skapa umhverfi sem laðar að fjárfestingu og sýna í verki að atvinnulífið sé velkomið.

Verði mér treyst til að leiða Reykjanesbæ sem bæjarstjóri mun ég vera bæjarstjóri sem gerir einmitt það. Bæjarstjóri sem sækir fyrirtækin, talar fyrir svæðinu af krafti og vinnur markvisst að því að gera Reykjanesbæ að besta stað landsins til að starfa, skapa og byggja upp.

Við þurfum sveitarfélag sem skilur að störf verða ekki til af sjálfu sér og sveitarfélag sem vinnur með atvinnulífinu en ekki gegn því. Við þurfum að lækka skatta og gjöld, einfalda ferla, flýta ákvörðunum og senda skýr skilaboð: hér er pláss fyrir ykkur, hér er samstarfsvilji og hér er framtíðin hvergi bjartari.

Við megum heldur ekki gleyma atvinnulífinu sem þegar er hér og heldur samfélaginu gangandi frá degi til dags. Þessi fyrirtæki hafa fjárfest í Reykjanesbæ, skapað störf og tekið áhættu. Þau eiga skilið að sveitarfélagið standi með þeim. Með stöðugleika, fyrirsjáanleika og góðu rekstrarumhverfi fá þau tækifæri til að stækka, ráða fleira fólk og verða áfram burðarás í uppbyggingu svæðisins.

Peningar vaxa ekki á trjánum og Suðurnesjamenn vita að sterkt atvinnulíf er forsenda sterkrar grunnþjónustu sveitarfélaga. Án þess verður erfitt að stytta biðlista á leikskólum, efla grunnskólana og styrkja íþróttafélögin. Ef þessari þróun verður ekki snúið við blasir við vítahringur – lakari þjónusta, minni aðdráttarafl fyrir fjölskyldur og þar með minni tekjur til framtíðar.

Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég býð mig fram. Mér er ekki sama. Mér er ekki sama hvað verður um sveitarfélagið mitt, hvar börnin mín alast upp og hvar við Silla munum eldast.

Atvinna skapar sjálfstæði, reisn og öryggi. Hún skapar samfélag sem fólk vill vera hluti af.

Nú vantar forystu sem trúir á svæðið og er tilbúin að berjast fyrir því. Atvinna handa öllum er ekki innantómt loforð. Það er markmið og það er markmið sem við munum ná með skýrri stefnu, sterkri forystu og óbilandi trú á Reykjanesbæ.

Höfundur er ritari Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Sjá meira


×