Körfubolti

Hilmar Smári: Gott að spila aftur í Garða­bænum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Hilmar Smári Henningsson sækir í átt að körfu Grindvíkur. 
Hilmar Smári Henningsson sækir í átt að körfu Grindvíkur.  Vísir/Diego

Hilmar Smári Henningsson snéri aftur í lið Stjörnunnar eftir dvöl sína í Litáen þegar liðið lagði Grindavík að velli í VÍS-bikar karla í körfubolta í kvöld. Hilmar Smári hélt til Litáen í kjölfar þess að hafa orðið Íslandsmeistari með Stjörnunni en lék í Stjörnutreyjunni að nýju í sigrinum gegn Grindvíkingum. 

„Það er ofboðslega góð tilfinnig að klæðast Stjörnutreyjunni á nýjan leik og frábært að koma inn í svona hörkuleik. Við erum að vinna 23 stiga sigur á liði sem hefur verið nær ósigrandi í deildinni í vetur og koma okkur í undanúrslit í bikarnum sem er sterkt,“ sagði Hilmar Smári Henningsson, sem snéri til baka í lið Stjörnunnnar á dögunum, að leik loknum.

„Við spiluðum öfluga vörn og það var hátt orkustig á þeim enda vallarins sem skilaði sér í því að við gátum sótt hratt í bakið á þeim í kjölfarið á unnum boltum. Við spiluðum af mikilli ákefð í um það bil 35 mínútur og hleyptum þeim aldrei inn í leikinn að neinu viti. Það er mjög jákvætt,“ sagði Hilmar Smári enn fremur.

„Þetta var mjög skemmtilegur leikur að spila. Hart tekist á að og það er bara gaman af því. Ég hef gaman að því að leikmenn berjist inni á vellinum og þannig á það að vera. Það sem gerðist hér eftir leikinn er hins vegar eitthvað sem á ekki að sjást og á ekki að vera partur af leiknum. Ég reyndi að hjálpa Khalil eftir það sem hann lenti í og þetta á ekki að endurtaka sig eftir leik hjá okkur,“ sagði hann.

„Ég er bara mjög spenntur fyrir komandi tímum í Garðabænum. Við erum með hörkulið sem ætlar að berjast um þá titla sem í boði eru. Nú er ég bara kominn með fullan fókus á það að gera það sem í mínu valdi stendur til þess að hjálpa liðinu við að lyfta bikurum,“ sagði Hilmar Smári um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×