Fótbolti

Davíð Kristján keyptur til Grikk­lands

Aron Guðmundsson skrifar
Davíð Kristján við undirritun samningsins sem heldur honum hjá Larissa út yfirstandandi tímabil.
Davíð Kristján við undirritun samningsins sem heldur honum hjá Larissa út yfirstandandi tímabil. Mynd: Larissa

Vinstri bakvörðurinn Davíð Kristján Ólafsson hefur verið keyptur til gríska félagsins Larissa frá Cracovia í Póllandi.

Frá þessu greinir Larissa í fréttatilkynningu á heimasíðu sinni núna í kvöld og skrifar Davíð undir samning við félagið út yfirstandandi tímabil.

Davíð er 31 árs gamall og hóf feril sinn hjá Breiðabliki en hefur síðan þá spilað fyrir Álasund í Noregi, Kalmar í Svíþjóð og nú síðast Cracovia í Póllandi þar sem hann hafði verið síðan á upphafsmánuðum ársins 2024.

Hjá Cracivia spilaði Davíð Kristján 52 leiki, skoraði fimm mörk og gaf sjö stoðsendingar. 

Larissa er sem stendur við botn grísku úrvalsdeildarinnar. Liðið er í 13.sæti í fjórtán liða deild með tíu stig að loknum 16.umferðum. 

Davíð verður ekki fyrsti Íslendingurinn til þess að spila leik fyrir Larissa. Markvörðurinn Ögmundur Kristinsson var á sínum tíma á mála hjá félaginu og spilaði fyrir það 67 leiki áður en hann var keyptur til Olympiacos í sama landi.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×