Fótbolti

Ís­land spilar við gest­gjafa HM og Haítí

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson og félagar í íslenska landsliðinu eru á leið til Kanada í lok mars.
Hákon Arnar Haraldsson og félagar í íslenska landsliðinu eru á leið til Kanada í lok mars. Getty/Catherine Steenkeste

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mun eftir tvo mánuði spila vináttulandsleiki við tvær af þátttökuþjóðunum á HM sem fram fer í Kanada, Mexíkó og Bandaríkjunum næsta sumar.

Frá þessu greinir kanadíska íþróttastöðin TSN sem segir að Ísland verði ein fjögurra þjóða sem spila muni í Toronto í lok mars. Miðillinn segir að þetta verði gert opinbert í vikunni.

Ísland mun samkvæmt þessu spila við Kanada og Haítí en fjórða þjóðin er svo Túnis sem Ísland mun ekki spila við, þar sem aðeins er pláss fyrir tvo leiki í þessum landsleikjaglugga.

Kanadamenn eru eins og fyrr segir í hlutverki gestgjafa á komandi heimsmeistaramóti og lagði kanadíska knattspyrnusambandið á það áherslu að spila leikina í mars á heimavelli, til undirbúnings fyrir mótið, samkvæmt frétt TSN.

Gætu mætt Davies og Isidor

Þar segir einnig að allra augu beinist að því hvort að fyrirliðinn Alphonso Davies, vinstri bakvörður Bayern München, verði með gegn Íslandi og Túnis eftir að hafa slitið krossband í hné í mars í fyrra.

Kanada er í 29. sæti heimslistans en Ísland í 74. sætinu. Haítí, sem spilar á HM í annað sinn, er svo í 83. sæti.

Leið Haítí á HM var ansi merkileg því liðið varð að spila heimaleiki sína í öðru landi, í Curacao, vegna ólgunnar heima fyrir. Það þýðir jafnframt að franski þjálfari liðsins, Sebastien Migne, hefur enn ekki heimsótt Haítí.

Mögulegt er að Haítí tefli fram nýjum leikmanni gegn Íslandi því viðræður hafa verið í gangi við Wilson Isidor, framherja Sunderland, um að spila fyrir þjóðina en Frakkinn á ættir að rekja til Haítí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×