Handbolti

Elvar skráður inn á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Elvar Ásgeirsson hefur kynnst því að spila á stórmóti.
Elvar Ásgeirsson hefur kynnst því að spila á stórmóti. vísir/Vilhelm

Þjálfarateymi íslenska landsliðsins hefur ákveðið að skrá Elvar Ásgeirsson formlega inn sem átjánda leikmann í hópi Íslands á EM í handbolta.

Elvar var kallaður til Malmö eftir að nafni hans, Elvar Örn Jónsson, handarbrotnaði og ljóst varð að hann yrði ekki meira með á mótinu.

Elvar Ásgeirsson hefur þó hingað til þurft að bíða utan hóps en með því að skrá hann inn á mótið er nú mögulegt að velja hann í 16 manna hóp fyrir hvern leik, til dæmis fyrir úrslitaleikinn við Slóveníu í dag sem ræður því hvort Ísland spilar meira á mótinu.

Elvar er 31 árs Mosfellingur og leikmaður Ribe-Esbjerg í Danmörku. Hann hefur spilað 21 landsleik og skorað í þeim 24 mörk.

Vika er síðan að Elvar var kallaður til Svíþjóðar. „Það var hringt í mig klukkan fjögur og ég dreif mig bara af stað. Var kominn hingað fjórum tímum síðar,“ sagði Elvar léttur  við komuna en hann vildi ekki stela fjölskyldubílnum af konunni og kom því með lest yfir til Svíþjóðar.

Elvar þekkir það að spila á stórmóti því hann var á HM 2023 eftir að hafa verið óvænt kallaður til Búdapest á Covid-mótinu mikla, EM 2022.

„Ég er aðeins rólegri núna en þegar ég kom inn í það mót. Það var svolítið stress þá. Ég á fínar minningar samt frá því móti. Þetta voru fyrstu landsleikirnir mínir og það á stórmóti. Ég hef ekki átt samtal við þjálfarana um mitt hlutverk en ég er til í að gera það sem ég er beðinn um að gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×