Handbolti

„Hann hefur al­veg fengið frið frá mér“

Sindri Sverrisson skrifar
Þórir Hergeirsson veit allt um það hvernig á að vinna verðlaun á stórmótum.
Þórir Hergeirsson veit allt um það hvernig á að vinna verðlaun á stórmótum. vísir/Vilhelm

„Ég er alltaf bjartsýnn,“ segir Þórir Hergeirsson í samtali við Sýn fyrir leik Íslands og Slóveníu í Malmö. Þessi margverðlaunaði þjálfari og ráðgjafi hjá HSÍ er til staðar en segir Snorra Stein Guðjónsson landsliðsþjálfara fá frið frá sér á mótinu.

„Hann hefur alveg fengið frið frá mér,“ segir Þórir léttur en hann var ráðinn sem ráðgjafi á afrekssviði HSÍ eftir að löngu og afar farsælu starfi hans sem þjálfari kvennalandsliðs Noregs lauk fyrir rúmu ári.

„Mín vinna í þessu er mest alla daga á milli stórmóta. Það er mitt hlutverk í afreksstarfinu. Þetta er gott teymi sem þeir hafa hérna og þeir eru fullfærir um að gera þetta vel. En ég er hérna og það er frekar að þeir hafi samband við mig en að ég sé að bögga þá,“ segir Þórir en viðtalið við hann má sjá hér að neðan.

Klippa: Þórir Hergeirs bjartsýnn í Malmö

Selfyssingurinn vonast að sjálfsögðu eftir því að strákarnir okkar nýti tækifærið sem Ungverjar veittu þeim í gærkvöld, með því að taka stig af Svíum:

„Það er ekki oft sem lið fá annan möguleika þegar komið er svona langt inn í mótið þannig að það verður bara að grípa tækifærið báðum höndum og gleðjast yfir því. Vonandi sjáum við það í leik strákanna á eftir, að þeir grípa gæsina,“ segir Þórir.

Þórir er samt vel meðvitaður um hve sterkir Slóvenar eru:

„Ég hef séð alla leikina þeirra og þeir byrjuðu hræðilega en hafa verið vaxandi. Þetta eru rosalega hæfileikaríkir leikmenn. Klókir. Þeir hafa þennan slóvenska skóla. Þeir eru mjög taktískir í sínum leik, góðir í að aðlaga sig og finna mótspil á andstæðingana, sérstaklega varnarlega. Þeir eru snúnir. Þetta verður hörkuleikur.“

En hver er lykillinn að sigri fyrir Íslendinga?

„Þeir þurfa fyrst og fremst að ná að setja upp góðan varnarleik, fá upp markvörsluna, og vera klókir sóknarlega. Þeir koma til með að mæta ýmsum afbrigðum. Slóvenarnir eru dýnamískir í sinni nálgun varnarlega, eiga eftir að „lyfta“ hér og þar og taka broddinn af þrýstingnum frá íslensku bakvörðunum. Það þarf að vera klókur og ná upp rosalegri stemningu varnarlega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×