Skoðun

Leysum leikskólamálin í Reykja­vík

Anna Björk Marteinsdóttir skrifar

Nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga byrja raddir að heyrast úr ýmsum áttum um leikskólamálin í Reykjavík. Meginstefið er hvernig laga megi það ástand sem er í leikskólakerfinu sem snýst í grunninn um mönnunarvanda.

Það er staðreynd að leikskólar eru opnir alla jafna í 44-45 klukkustundir á viku. Vinnuvika starfsfólks í leikskólum var hins vegar stytt í 36 stundir. Mismunurinn er 6 klukkustundir á viku. Þá eru veikindi starfsfólks um 10% að meðaltali á mánuði. Afleysing fyrir veikindi er aðeins reiknuð sem 4% í fjárveitingum en þá vantar að bæta upp 6 %. Þegar kemur að fjármögnun vegna mönnunar er reiknað með að hver starfsmaður vinni 40 klukkustundir á viku en eins og fram hefur komið er vinnuvika starfsfólks aðeins 36 klukkustundir. Þessir 4 tímar sem munar um á viku safnast saman í 184 klukkustundir á ári á hvern starfsmann. Þessir tímar eru ekki fjármagnaðir í fjárhagslíkönum fyrir leikskóla. Einnig er hægt að benda á að sumarfrí starfsfólks er almennt 30 dagar meðan börn eru skyldug að taka 20 daga í sumarfrí. Þá vantar að manna 10 daga fyrir hvern starfsmann á ári. Eins og sjá má gengur þetta reikningsdæmi ekki upp.

Nokkur sveitarfélög hafa reynt að leysa leikskólavandann til dæmis með því að stytta viðveru barna þar sem vinnutíma starfsfólks yfir 36 klukkustundum fylgir ekki fjármagn í fjárhagslíkönum almennt. Ástæðan fyrir fjármagnsskorti er sú að stytting vinnuvikunnar átti ekki að kosta sveitarfélögin neitt.

Reykjavík, eins og önnur sveitarfélög, hefur verið að skoða hvernig leysa á leikskólavandann hjá sér síðasta hálfa árið. Mikil vinna hefur farið í kynningar og útfærslur. Vandað hefur verið til verka frá mörgum sjónarhornum hagsmunahópa. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga er þó komin enn ein ný hugmynd: Hættum bara við alla þessar hugmyndir um að stytta viðveru tíma barna í leikskólum. Nýjar raddir eru komnar að borði: Lengjum bara viðveru barna og leysum þannig leikskólavandann. Kannski er þetta ekki vitlausari hugmynd en aðrar. Kannski væri sniðugt að lengja líka aftur vinnuvikuna. Óháð öllum nýjum röddum og hugmyndum stendur leikskólinn enn þá á þeim stað að opnunartími er 44-45 klukkustundir meðan gert er ráð fyrir að starfsfólk vinni 36 stundir.

Þarf að flækja leikskólamálin svona fram og til baka? Hvernig væri að einfalda málin og byrja á að því að manna veikindaafleysingar eins og raunverulega er þörf á og manna leikskólana á réttum forsendum þar sem vinnuvika hvers starfsmanns er 36 klukkustundir á viku. Þá erum við allavega komin á stað þar sem við getum kannski haldið leikskólunum opnum og farið að skoða aðra hluti í starfseminni en það hvort við getum haft opið í dag.

Höfundur er leikskólastjóri.




Skoðun

Skoðun

Fimm rang­færslur um Byrjendalæsi

Gunnar Gíslason,Guðmundur Engilbertsson,Jenný Gunnbjörnsdóttir ,Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir,Rannveig Oddsdóttir,Rúnar Sigþórsson skrifar

Sjá meira


×