Handbolti

„Ætla ekkert að fara að fela mig á bak við það“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Janus Daði Smárason skoraði átta mörk fyrir Ísland í kvöld.
Janus Daði Smárason skoraði átta mörk fyrir Ísland í kvöld. Vísir/Vilhelm

„Ég er bara sár og svekktur. Tómur aðeins núna svona stuttu eftir leik,“ sagði Janus Daði Smárason eftir svekkjandi tap Íslands gegn Dönum í undanúrslitum EM í handbolta í kvöld.

„Það er hægt að tína einhver atriði til hér og þar. Þetta var bara góður handboltaleikur og Danirnir því miður enda með fleiri mörk en við,“ bætti Janus við.

Danska vörnin gerði íslensku strákunum erfitt fyrir í kvöld og var til að mynda með um tvöfalt fleiri lögleg stopp en íslenska vörnin. En hvað veldur þessum mun?

„Danirnir halda boltanum kannski aðeins betur á lífi og við höfum líka bara verið góðir í hinu á mótinu. Það var pottþétt eitthvað móment í leiknum þar sem við hefðum átt að láta boltann vinna betur fyrir okkur. Það er bara eins og það er.“

Þá segir Janus að það sé gríðarlega erfitt að eiga við danska liðið.

„Það krefst rosa orku og einbeitingar. Þeir held ég að sé best spilandi sóknarlið í Evrópu. Mér fannst við leysa það mjög vel á köflum. Það vantaði bara hársbreidd upp á í dag. Ég er bara svekktur.“

Janus vildi hins vegar alls ekki tjá sig um dómgæslu leiksins, sem oft og tíðum var hægt að setja spurningamerki við.

„Ég bara ætla ekki að tala um það,“ sagði Janus einfaldlega.

Hann gaf einnig heldur ekki mikið fyrir það að það hafi verið erfitt fyrir íslenska liðið að spila fyrir framan fulla höll af Dönum.

„Það gefur örugglega Dönunum orku, en það var bara geggjað að spila þennan leik og ég held að það gefi okkur líka að heyra aðeins í Dönunum. Þannig það er eitthvað sem ég ætla ekkert að fara að fela mig á bak við það.“

Að lokum segir Janus að íslenska liðið geti ekki neitað því að Danir hafi verið of stór biti fyrir Ísland í dag.

„Við unnum allavega ekki þannig að akkúrat í dag náðum vuð ekki að svara því,“ sagði Janus að lokum.

Klippa: Janus Daði eftir tapið gegn Dönum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×