Innlent

Þörf á hugarfarsbreytingu

Báðir þeir sem voru í beltum þegar rútan fór út af veginum undir Akrafjalli í fyrradag og endaði á hvolfi sluppu ómeiddir. Sigurður Guðmundsson landlæknir segir þetta sýna hversu brýnt það sé að fólk fari eftir reglum og spenni beltin. Rútan var ekki á mikilli ferð þegar slysið varð en Sigurður segir samt sem áður mikla mildi að ekki skuli hafa farið verr. Hann segir að kannski þurfi ákveðna hugarfarsbreytingu hjá fólki. Það telji sig kannski vera öruggt í stórum rútum en sú sé alls ekki raunin. "Jafnvel þó að rúta velti á litlum hraða getur fólk stórslasast ef það er ekki í beltum," segir Sigurður. "Það getur fengið höfuðhögg, hálsáverka, lent á öðrum og fengið brjóstholsáverka eða alvarlega kviðarholsáverka. Rúður geta brotnað og þá getur fólk skorist alvarlega á stórum æðum á hálsi, í nára og á höndum. Ef fólk telur sig vera öruggara í rútum þá er það fölsk öryggistilfinning."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×