Innlent

Bílþjófur kominn í fangelsi

Maður fæddur árið 1982 var handtekinn í fyrrakvöld í tengslum við rannsókn fjölda bílþjófnaða sem lögreglan í Reykjavík og lögreglan í Kópavogi unnu saman að. Fyrir liggur að maðurinn er búinn að stela 25 bílum undanfarnar vikur og mánuði að sögn Harðar Jóhannessonar, yfirlögregluþjóns í Reykjavík. Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu en hann fór í afplánun í gær því hann átti eftir að sitja af sér dóm. Hörður segir stóran hluta af bílþjófnuðum að undanförnu hafa verið upplýstan með handtöku mannsins. Maðurinn virðist hafa notað bílana til að komast á milli staða og til að hafa til afnota í einhvern tíma en skildi þá síðan eftir hér og þar. Haukur Ásmundsson sagði í viðtali við Fréttablaðið í vikunni að Nissan og Subaru væru búnir að vera vinsælir meðal bílþjófa í nokkurn tíma. Auðvelt er að komast inn í þær tegundir bíla af árgerð 1997 og eldri og hvetur Haukur eigendur þeirra bíla til að láta skipta um sýlinder vegna galla sem virðist vera í þeim. Einnig hvetur hann fólk til að skilja engin sýnileg verðmæti eftir í bílum því það sé ávísun á innbrot.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×