Innlent

Gagnrýni ákvæði um RÚV

Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri segist ekki sjá nein rök fyrir ákvæði í frumvarpi að nýjum lögum um Ríkisútvarpið, þar sem kveðið er á um að stjórn stofnunarinnar eigi að setja reglur um fréttaflutning og auglýsingar og gæta þess að reglum sé fylgt. Þetta kom fram í máli Markúsar Arnar á fundi í Reykjavíkurakademíunni í gær þar sem fulltrúar fjölmiðla og stjórnmálaflokka auk starfsmanns fjölmiðlanefndar og fulltrúa Símans ræddu hið nýja frumvarp um starfsemi RÚV ásamt nýrri skýrslu fjölmiðlanefndar um starfsumhverfi fjölmiðla í landinu. Með þessu má segja að Markús Örn taki undir athugasemdir sem Vinstri grænir hafa gert við þetta ákvæði frumvarpsins í umræðum opinberlega og á þingi. "Er ekki dagskrárlegt yfirvald með þessu ákvæði komið inn á svið hinnar rekstarlegu framkvæmdastjórnar?" spurði Markús Örn og taldi þetta stangast á við skýringar með frumvarpinu þar sem segir að það sé ekki verkefni stjórnar hins nýja sameignarfélags um RÚV að hafa afskipti af dagskrá Ríkisútvarpsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×