Innlent

Greiddi 560 milljónir í sekt

OLÍS greiddi ríkissjóði 560 milljóna króna sekt fyrir ólögmætt verðsamráð olíufélaganna. Þar með hafa stóru olíufélögin þrjú greitt samtals einn og hálfan milljarð í sektir. Stjórnendur OLÍS tóku ávörðun um að greiða sektina í kjölfar bréfs sem þeim barst frá fjármálaráðuneytinu í morgun þess efnis að ráðuneytið teldi sig skorta heimildir til að fallast á bankatryggingu fyrir sektargreiðslunni þar til dómur gengi í málinu. Þar með hafa stóru olíufélögin þrjú greitt samtals um einn og hálfan milljarð í sektir samkvæmt ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála í janúar síðastliðnum vegna ólöglegs verðsamráðs félaganna, en ESSO greiddi 490 milljónir og Skeljungur 450 milljónir. Gísli Baldur Garðarsson, lögmaður OLÍS, segir að olíuverslunin hafi þurft að leita til viðskiptabanka síns og fengið fyrirgreiðslu til þess að greiða sektina. Hann segir að á síðari stigum kunni að verða nauðsynlegt að losa um eignir fyrirtækisins vegna greiðslunnar. OLÍS undirbýr nú stefnu vegna málsins og ætlar að birta hana áður en frestur til þess að höfða mál vegna ákvörðunar samkeppnisyfirvalda rennur út í lok júlí næstkomandi. Lögmaður OLÍS telur óeðlilegt að olíufélögunum sé gert að greiða sektir áður en málið hafi verið útkljáð fyrir dómstólum. Hann segir það í hrópandi ósamræmi við Mannréttindasáttmála Evrópu og telur að dómstólar komi til með að dæma á þann veg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×