Sport

Kristján lágt skrifaður í Noregi

Kristján Örn Sigurðsson knattspyrnukappi með Brann í Noregi og íslenska landsliðinu er ekki í miklum metum hjá norskum fjölmiðlamönnum. Hann hefur reyndar átt ágætu gengi að fagna á árinu en hann hefur haldið sæti sínu í byrjunarliði Brann eftir að hafa fengið sitt tækifæri snemma á tímabilinu og hann hefur sömuleiðis átt sitt sæti í byrjunarliði íslenska landsliðsins. En íþróttablaðamann norska dagblaðsins Verdens Gang meta hann ekki betur en svo að hann er lægstur allra þeirra sem hafa leikið nóg af tímabilinu, 60% leikjanna, til að komast á listann. Kristján Örn er í 141. sæti listans með 3,73 í meðaleinkunn en gefið er á skalanum einn upp í tíu. Fimm Íslendingar leika í norsku úrvalsdeildinni og hafa allir leikið nóg til að komast á listann. Flestir eru þeir fremur neðarlega á listanum nema Árni Gautur Arason, markvörður Vålerenga, sem er í 23. sæti. "Ég reyni að fylgjast sem minnst með þessu," sagði Kristján Örn í gær þegar Fréttablaðið hafði samband. "Þetta er enn allt tiltölulega nýtt fyrir mér en mér finnst að mér hafi gengið betur og betur í hverjum leik."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×