Sport

Allardyce reiður

NordicPhotos/GettyImages
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Bolton, brást harðlega við þegar lið hans var gagnrýnt í fjölmiðlum í Englandi fyrir að spila ekki nógu skemmtilegan fótbolta og segir að menn eins og Arsene Wenger ættu að líta í eigin barm áður en þeir fara að gagnrýna liðið sitt. Wenger er einn af þeim sem hefur kvartað yfir því að liðin í ensku úrvalsdeildinni í dag, spili varnarsinnaðan og leiðinlegan bolta, sem sé að fæla burt áhorfendur. "Ég veit ekki hvað þessir menn halda að þeir séu. Við hjá Bolton reynum alltaf að spila eins góðan bolta og við getum, með þeim leikmönnum sem við getum. Það er alveg dæmigert að eigi að kenna mér um það að spilaður sé leiðinlegur bolti á Englandi. Ég veit ekki hvað er að þessum mönnum. Sennilega eru þeir bara öfundsjúkir af því við höfum hvað minnsta peninga allra liða á milli handanna, en erum samt alltaf í efri hluta deildarinnar og erum í Evrópukeppni. Ég held að þessir menn ættu bara að koma á völlinn og horfa á okkur áður en þeir byrja að rífa kjaft," sagði Allardyce. "Ég veit nú ekki betur en að lið Arsenal hafi spilað með einn mann frammi gegn Manchester United í bikarúrslitaleiknum í vor og hangið á jafntefli fram í vítaspyrnukeppni. Ég held að Arsene Wenger ætti frekar að líta í eigin barm og hætta að skipta sér að því hvernig aðrir vinna vinnuna sína," bætti Allardyce við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×