Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, hældi Joe Cole á hvert reipi í dag eftir að landsliðsmaðurinn enski lagði upp sigurmark Chelsea gegn Fulham í 3-2 sigri liðsins.
Cole var notaður á miðri miðjunni í dag, en var færður í sína upprunalegu stöðu á kantinum í síðari hálfleik og fór í kjölfarið oft illa með varnarmenn Fulham sem réðu ekkert við hann.
"Joe Cole er bestur á vængjunum og hefur verið að spila hreint út sagt frábærlega undanfarið. Það var kannski ekki mjög sniðugt hjá mér að troða honum á miðjuna í dag, því við söknuðum krafta hans í kantspilinu á meðan. Eftir að ég færði hann út á vænginn sýndi hann svo hvers hann er megnugur og undirbúningur hans í sigurmarkinu var frábær," sagði Mourinho.