Forráðamenn McLaren Mercedez fullyrða að vélar liðsins verði ekki til sömu vandræða og í fyrra og segja prófanir á síðustu fimm vikum lofa góðu um stöðugleika. Sífelldar vélarbilanir hjá Kimi Raikkönen í fyrra urðu þess valdandi að hann gat ekki veitt Fernando Alonso verðuga keppni um titil ökuþóra.
"Vélin hjá okkur núna hefur staðist allar þær prófanir sem við höfum gert fram til þessa og heldur vel í við þær bestu hvað varðar hraða," sagði talsmaður Mercedez. Fyrsta mót ársins er um næstu helgi í Barein.