Sport

Eto'o ekki falur fyrir neina fjárhæð

Frank Rijkaard, knattspyrnustjóri Barcelona segir að kamerúnski sóknarmaðurinn Samuel Eto'o sé ekki falur, sama hvaða fjárhæð verði boðin í leikmanninn. Sögusagnir herma að Chelsea hafi boðið 50 milljónir punda í leikmanninn þegar liðin mættust í Meistaradeildinni fyrr í mánuðinum.

Rijkaard hefur hins vegar aðeins hug á að styrkja lið sitt enn frekar í sókninni og er búist við því að spænski risinn muni gera tilraun til að landa Thierry Henry frá Arsenal þegar félagaskiptaglugginn opnar aftur í maí. Rijkaard segir að andrúmsloftið hjá Barcelona sé of gott til að einhver hans leikmanna vilji fara.

"Félagið hefur nákvæmlega engin áform um að selja eins góðan leikmann og Eto'o. Flestum leikmannanna kemur vel saman vegna þess að við höfum byggt upp svo gott andrúmsloft innan liðsins. Ég er því viss um að mínir leikmenn vilji ekki skipta um félag." sagði Rijkaard.

Eto'o er markahæsti leikmaðurinn í spænsku úrvalsdeildinni en hann skoraði sitt tuttugasta mark í deildinni í gærkvöldi þegar Barcelona lagði Real Sociedad 2-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×