Fótbolti

Meira en helmingur markanna gegn KR

Fagnar hér marki sínu gegn KR í fyrrakvöld ásamt Ásgeiri Gunnari Ásgeirssyni og Dennis
Fagnar hér marki sínu gegn KR í fyrrakvöld ásamt Ásgeiri Gunnari Ásgeirssyni og Dennis Siim.fréttablaðið/daníel

Guðmundur Sævarsson, bakvörðurinn knái í FH, skoraði í fyrrakvöld annað mark sinna manna gegn KR í Vesturbænum. Það var hans ellefta mark í efstu deild á ferlinum en þar af hefur hann skorað sex þeirra á móti KR. Guðmundur skoraði þrennu í 7-0 sigrinum fræga á Kaplakrikavelli í lokaleik umferðarinnar 2002 og þar að auki hefur hann skorað þrívegis í Vesturbænum.



„Ég held nú að liðinu öllu líði yfirleitt vel í Vesturbænum," sagði hann aðspurður um hverju þetta sætti. „Ég legg svo sem enga sérstaka áherslu á að skora gegn KR," bætti hann við.

Markið í fyrrakvöld skoraði hann þar að auki með skalla sem þykir heldur óvenjulegt. „Ég man nú ekki hvenær ég skoraði síðast með skalla. Ég held samt að það hafi einhvern tímann gerst áður í meistaraflokki," sagði hann.

Hann er þó alls ekki óvanur því að skora mörk því hann lék sem framherji í gegnum alla yngri flokkana hjá FH. Þótti hann markheppinn með eindæmum.



Guðmundur spilaði sitt fyrsta tímabil í efstu deild árið 2001. „Ég spilaði sem bakvörður í 2-3 leikjum þegar Hilmar Björnsson meiddist en annars lék ég fyrst og fremst á hægri kantinum þessi fyrstu ár í deildinni. Það var svo árið 2004 sem ég fór í bakvörðinn. Mér líkar vel þar og þar að auki gefur þjálfarinn mér leyfi til að sækja aðeins fram á völlinn," sagði hann.

Hann er vitanlega sáttur við árangur FH-liðsins til þessa á mótinu og segir að það stefni að sínum fjórða Íslandsmeistaratitli í röð. „Ég held að við hefðum vel sætt okkur við þessa góðu byrjun fyrir mót."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×