Skoðun

Gott hjá Össuri

Ögmundur Jónasson skrifar
Djúpstæðustu átök undanfarna áratugi eru átökin um eignarhald á auðlindum til lands og sjávar. Afdrifaríkar ákvarðanir hafa verið teknar, til dæmis kvótalögin sem allir þekkja og ýmis önnur lög af sama meiði, sem eru síður kunn þótt þau eigi eftir að hafa áhrif á skiptingu gæðanna ekki síður en kvótalögin.

Lögin um Rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu frá 1998 eru þannig einhver skelfilegustu lög síðari tíma en með þeim var eignarhald á jarðhitanum fært í hendur einkaaðila.

Átökin hafa snúist um þetta: Eiga einkaaðilar að öðlast eignarhald á auðlindunum eða fá afnotarétt af þeim? Þegar stjórnarmeirihlutinn á síðasta kjörtímabili talaði fyrir breytingum á vatnalögum, sem gengu út á að styrkja einkaeignarrétt á vatni, var viðkvæðið þetta: „Við erum í reynd ekki að breyta neinu, við erum að endurskoða vatnalagabálkinn, sem er að verða aldargamall, í ljósi nýrra tíma. Dómapraxís tuttugustu aldarinnar gengur út á að efla einkaeignarréttinn og við erum í reynd ekki að gera annað en breyta orðalagi laganna í samræmi við það.“

Stjórnarandstaðan sameinuð sagði á hinn bóginn: „Endurskoðum lagabálkinn frá 1923 fyrir alla muni. En gerum það í anda kröfu samtímans um að treysta og efla almannarétt ekki einkaeignarrétt. Vatnið er dýrmætasta auðlind 21. aldarinnar. Eignarhaldið á því á að vera um alla framtíð hjá þjóðinni, þótt hún kunni að framselja afnotaréttinn, tímabundið.“

Gegn vatnalagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar stóð stjórnarandstaðan sem órofa heild og ég hef grun um að í stjórnarmeirihlutanum hafi þeir verið til sem ekki grétu þegar okkur tókst að fresta gildis­töku laganna. Það gladdi mig þegar Össur Skarphéðins­son iðnaðarráðherra lýsti því yfir að hann hygðist láta endurskoða hina umdeildu lagasmíð. Ef niður­staðan verður sú að hið umdeilda vatnalaga­frumvarp komi ekki til framkvæmda og efnt verður til þverpólitísks samstarfs um endurskoðun laganna má ganga að stuðningi þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem vísum enda fluttum við þingmál þessa efnis strax að afloknum kosningum sl. vor.Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Sjá meira


×