Körfubolti

Friðrik klár í slaginn á ný

Friðrik Stefánsson er á góðum batavegi
Friðrik Stefánsson er á góðum batavegi

Miðherjinn Friðrik Stefánsson hjá Njarðvík hefur fengið þær góðu fréttir að hann megi byrja að æfa körfubolta á ný. Friðrik gat ekki leikið með Njarðvíkingum í úrslitakeppninni í vor vegna hjartagalla.

Friðrik fór í aðgerð vegna hjartaflökts í vetur og fékk fljótlega grænt ljós á að byrja að spila aftur, en veikindi hans tóku sig upp á ný í vor og því varð hann að sleppa úrslitakeppninni. Óttast var að Friðrik þyrfti jafnvel að leggja skóna á hilluna.

Friðrik fór í aðra aðgerð fyrir nokkru og fór í skoðun hjá læknum fyrir helgina. Útkoman var mjög góð og vonast Friðrik nú til að geta spilað áfram með Njarðvíkingum á komandi vetri.

"Ég er búinn að fá grænt ljós á að halda áfram þangað til annað kemur í ljós og töluvert fyrr en ég bjóst við. Það er reyndar ekki útilokað að eitthvað svona komi fyrir aftur, en vonir standa til um að þeir séu komnir fyrir þetta. Það eiga að vera 90% líkur á því að þetta sé orðið gott, en annars eru víst til einhverjar 200 tegundir af þessu meini svo það er kannski erfitt að segja til um það," sagði landsliðsmaðurinn í samtali við Vísi í kvöld.

Friðrik segist hafa verið léttur í spori þegar hann fór frá lækninum fyrir helgina. "Það var gott að fá þessi góðu tíðindi og það hefði verið afar erfitt að kyngja því að þurfa að ljúka ferlinum með þessum hætti. Ég var farinn að sjá það fyrir mér að þurfa að fara að spila golf," sagði Friðrik léttur í bragði.

Ljóst er að Friðrik og félagar í Njarðvík fá nýjan þjálfara næsta vetur og reiknað er með að það verði Valur Ingimundarson sem tekur við liðinu. Valur mun væntanlega skrifa undir samning við suðurnesjamenn eftir helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×