Körfubolti

Kreppufundur á mánudag

Jón Arnar Ingvarsson og félagar í ÍR verða án erlendra leikmanna í vetur
Jón Arnar Ingvarsson og félagar í ÍR verða án erlendra leikmanna í vetur Mynd/Stefán

Körfuknattleikssamband Íslands hefur kallað saman fund með forráðamönnum liða í efstu deild karla og kvenna á mánudag.

Á fundinum verður farið yfir stöðu mála í deildunum í kjölfar þróunar í efnahagsmálum á Íslandi síðustu daga.

Körfuknattleikssambandið ákvað að kalla til fundar að með forráðamönnum eftir að nokkrir þeirra höfðu samband og lýstu yfir áhyggjum sínum yfir ástandinu.

Í gær gaf körfuknattleiksdeild ÍR út yfirlýsingu þar sem fram kom að deildin hefði sagt upp samningi við tvo erlenda leikmenn sína þar sem "forsendur fyrir rekstri meistaraflokks væru brostnar."

Vísir hefur heimildir fyrir því að fleiri körfuknattleiksdeildir hafi áhyggjur af þróun mála.

Nokkuð misjafnt hljóð er í mönnum með stöðu mála í körfuboltanum, enda eru körfuknattleiksdeildir félaganna í efstu deildum misstórar og í misumfangsmiklum rekstri.

Vísir náði tali af forystumönnum KKÍ í gær og lýstu þeir yfir ánægju sinni með fundinn, þar sem mikilvægt væri að deildirnar störfuðu í takt og að varpað væri skýru ljósi á stöðu mála.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×