Körfubolti

Frábær sigur hjá KR í Njarðvík

Helgi Magnússon var frábær í síðari hálfleik í kvöld
Helgi Magnússon var frábær í síðari hálfleik í kvöld

Íslandsmeistarar KR sýndu mikla seiglu í kvöld þegar þeir lögðu Njarðvíkinga 106-97 í frábærum og sveiflukenndum leik liðanna í Iceland Express deild karla.

Njarðvíkingar höfðu 10 stiga forystu eftir fyrsta leikhlutann og 16 stiga forystu í hálfleik 60-44. Eftir það hresstust vesturbæingar og komu sér inn í leikinn og unnu að lokum nokkuð öruggan sigur. Lið Njarðvíkur var heillum horfið á köflum í síðari hálfleiknum og miklu munaði þar um að Damon Bailey fékk þar sína 4. villu.

Joshua Helm og Helgi Magnússon vor að öðrum ólöstuðum bestu menn KR í leiknum, en Helgi var mjög drjúgur í síðari hálfleiknum og virtist hressast til muna eftir að Hörður Axel Vilhjálmsson sló hann óvart í andlitið um miðbik leiksins.

"Við spiluðum eins og ræflar í fyrri hálfleik, en fórum að spila vörn í seinni hálfleiknum. Þá small þetta allt hjá okkur, því það er nóg af mönnum sem geta skorað hjá okkur," sagði Helgi Magnússon í samtali við Sýn eftir leikinn.

Hann var spurður út í höggið sem hann fékk óvart frá Herði. Benni þjálfari sagði okkur að hætta að láta þá lemja okkur og hrinda okkur. Þetta kemur svo allt af sjálfu sér þegar við förum að spila fantavörn," sagði Helgi.

Keflvíkingar gerðu góða ferð í Breiðholtið og lögðu ÍR 88-77 og sitja því enn í toppsæti deildarinnar með 28 stig, en KR hefur 26 stig í öðru sæti. Skallagrímur er í fjórða sætinu með 20 stig eftir sigur á Fjölni í Grafarvogi í kvöld 79-66.

 

Umfjöllun um leikinn kemur hér á Vísi í fyrramálið en tölfræðin síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×