Handbolti

Alfreð hættir með Gróttu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Örn Finnsson, þjálfari Gróttu.
Alfreð Örn Finnsson, þjálfari Gróttu. Mynd/Anton

Alfreð Örn Finnsson hefur ákveðið að hætta þjálfun Gróttu sem leikur í N1-deild kvenna. Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum en hefur tilkynnt bæði stjórn og leikmönnum ákvörðun sína.

Alfreð gerði ÍBV að Íslandsmeisturunum árið 2006 og tók við liði Gróttu eftir það. Hann var kjörinn þjálfari ársins bæði árið 2006 og 2007 en Grótta varð í öðru sæti í deildinni í fyrra.

Grótta er sem stendur í fjórða sæti N1-deildar kvenna, tólf stigum á eftir toppliði Fram.

Á heimasíðu Gróttu birtist eftirfarandi yfirlýsing frá Alfreð:

„Ég hef ákveðið að hætta þjálfun á kvennaliði Gróttu eftir þetta tímabil. Ég gerði 3 ára samning þegar ég kom aftur á Nesið þannig að í raun á ég eitt ár eftir af honum en þetta er niðurstaðan og hef ég nú tilkynnt leikmönnum og stjórn ákvörðun mína.

Þetta hefur ekkert með vonbrigði vetrarins að gera, vissulega hefði verið skemmtilegra að kveðja eftir árangursríkari vetur en svona er lífið.

Ég hef ekki leynt því að þessi vetur hefur verið erfiður en að sama skapi lærdómsríkur og jafnframt skemmtilegur enda er þetta topphópur skemmtilegra einstaklinga.

Nú verður markmið okkar að halda 4.sætinu og gera gott úr því sem eftir er.

Ástæðan fyrir því að ég ætla að hætta er einfaldlega sú að ég á 1 ár eftir í náminu mínu og mér finnst ég skulda sjálfum mér að hafa skólann í forgangi næsta vetur. Einnig verð ég að játa að æfingatímarnir henta illa fyrir fjölskylduna sérstaklega þar sem við hjónin erum í þessu saman, það ætti því að vera minna álag á ömmu og afa næsta vetur.

Það verður vafalítið einkennilegt að vera ekki að þjálfa og ég kem til með að sakna þess. Hvort að ég taki mér eingöngu 1 árs frí eða hætti alveg kemur í ljós síðar og fæst orð bera minnsta ábyrgð í því samhengi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×