Körfubolti

Fær tvö olnbogaskot í stað eins

Jón þarf í fyrsta sinn á ferlinum að spila á móti Magnúsi félaga sínum næsta vetur
Jón þarf í fyrsta sinn á ferlinum að spila á móti Magnúsi félaga sínum næsta vetur Mynd/Víkurfréttir

"Maggi verður alltaf vinur minn hvort sem hann fer í Njarðvík eða eitthvað annað," sagði Jón Norðdal Hafsteinsson, leikmaður Keflavíkur, um ákvörðun félaga hans Magnúsar Gunnarssonar um að ganga í raðir Njarðvíkinga.

Jón segist virða ákvörðun Magnúsar að vilja breyta til og segist vænta þess að hún mæti almennt skilningi hjá fólki.

"Það er auðvitað slæmt að missa Magga úr Keflavík en þetta er samt enginn heimsendir hjá okkur. Það verður líka bara skemmtileg áskorun að spila á móti honum," sagði Jón í samtali við Vísi í kvöld.

Þeir Jón og Magnús hafa spilað saman síðan þeir voru smápattar og því verða viðbrigðin talsverð að mati Jóns.

"Við erum búnir að spila saman síðan við vorum níu ára gamlir og höfum unnið allt sem hægt er að vinna í körfuboltanum hérna heima. Það má segja að sé verið að slíta á naflastrenginn hjá okkur. Þetta verður áskorun fyrir mig líka," sagði Jón.

En má Magnús ekki eiga von á óblíðum móttökum frá leikmönnum og stuðningsmönnum Keflavíkur þegar liðin mætast næsta vetur?

"Það er alltaf rígur á milli Keflavíkur og Njarðvíkur, en hann fær svosem ekkert verri móttökur hjá okkur af því hann er hjá Njarðvík. Hann á eflaust eftir að fá einhverjar kyndingar þegar hann kemur hingað. Ætli við gefum honum bara ekki tvö olnbogaskot í staðinn fyrir eitt," sagði Jón hlæjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×