Körfubolti

Heldur spennan áfram í leikjum Snæfells og Stjörnunnar?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse er að spila á móti sínum gömlu félögum.
Justin Shouse er að spila á móti sínum gömlu félögum. Mynd/Daníel

Fyrsti leikur einvígis Snæfells og Stjörnunnar í 8 liða úrslitum Iceland Express deildar karla hefst klukkan 16.00 í Fjárhúsinu í Stykkishólmi. Snæfell endaði í 3. sæti og Stjarnan í því sjötta en bæði lið hafa spilað mjög vel eftir áramót.

Leikir Snæfells og Stjörnunnar hafa verið spennandi í vetur. Snæfell vann fyrri leikinn með 4 stigum, 87-83, í Hólminum í desember en Stjarnan vann aftur á móti seinni leikinn með 3 stigum, 82-79, í Garðabær á dögunum.

Justin Shouse hefur leikið mjög vel á móti sínum gömlu félögum í þessum tveimur leikjum en hann er með 24 stig, 10 stoðsendingar og 3,5 stolna bolta að meðaltali í þeim. Shouse tryggði líka Snæfelli sigurinn í seinni leiknum með því að skora átta síðustu stig liðsins í leiknum og þar á meðal sigurkörfuna.

Snæfell lék ekki með fullmannað lið á móti Stjörnunni í síðasta leik liðanna þar sem Sigurður Þorvaldsson, annar spilandi þjálfara liðsins, gat þá ekki leikið með vegna meiðsla. Það var aðeins annað tap liðsins frá því í byrjun desember en hitt kom á móti KR.

Snæfell hefur unnið 11 af síðustu 13 leikjum sínum en Stjörnumenn hafa á sama tíma unnið 12 af 16 leikjum sínum í öllum keppnum síðan að Teitur Örlygsson tók við liðinu í desember.

Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, mætti Snæfelli í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar í fyrra þegar hann þjálfaði Njarðvík. Njarðvík var þá með heimavallarrétt en tapaði einvíginu 0-2, fyrri leiknum 71-84 í Njarðvík og þeim seinni 66-80 í Hólminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×