Körfubolti

Hlynur hefur sparað skotin gegn Grindavík í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Þorvaldsson hefur varla brennt af skoti í deildarleikjunum vetrarins gegn Grindavík.
Sigurður Þorvaldsson hefur varla brennt af skoti í deildarleikjunum vetrarins gegn Grindavík. Mynd/Stefán

Það mun mikið mæða á þjálfurum Snæfells, Hlyni Bæringssyni og Sigurði Þorvaldssyni, í kvöld þegar Grindavík og Snæfell mætast í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvígi þeirra í Iceland Express deild karla. Leikurinn fer fram í Grindavík, hefst klukkan 19.15 og verður í beinni sjónvarpsútsendingu á Stöð 2 Sport.

Þeir Hlynur og Sigurður hafa báðir spilað mjög vel í innbyrðisleikjunum við Snæfell í Iceland Express deildinni í vetur og eru í fyrsta og þriðja sæti yfir á leikmenn sem hafa skilað mestu til sinna liða í þessum tveimur leikjum. Hlynur er jafn Brenton Birmingham í efsta sætinu með 32,0 framlagsstig í leik en Sigurður er í þriðja sæti með 24,5 framlagsstig í leik í tveimur deildarleikjum við Grindavík.

Saman hafa þjálfararnir hitt úr 26 af 36 skotum sínum í þessum tveimur leikjum sem gerir 72,2 prósent skotnýtingu sem er frábær hittni. Þeir hafa aðeins þurft að taka 36 skot utan af velli til að skora 76 stig sem gerir að hvert skot þeirra er búið að skila að meðaltali 2,1 stigi til liðsins.

Hlynur Bæringsson hefur verið spar á skotin sín í þessum tveimur leikjum og er sem dæmi með einni fleiri stoðsendingu (14) en skot á körfuna (13). Hlynur hefur skorað 15,0 stig, tekið 14,0 fráköst og gefið 7,0 stoðsendingar að meðaltali í Grindavíkurleikjunum og eina aðfinnslan er að hann er búinn að hitta betur úr skotum utan af velli (69,2 prósent) heldur en vítaskotum sínum (60,0 prósent).

Sigurður Þorvaldsson hefur verið sjóðheitur í þessum tveimur leikum og hefur aðeins klikkað á 6 af 23 skotum sínum og 1 af 8 vítum. Sigurður hefur skorað 23,0 stig að meðaltali og nýtt 5 af 6 þriggja stiga skotum sínum. Skotnýting hans utan af velli er 73,9 prósent sem er einstaklega góð skotnýting.

Hæsta framlagið í deildarleikjum Grindavíkur og Snæfells í vetur:

1. Hlynur Bæringsson, Snæfell 32,0

1. Brenton Birmingham, Grindavík 32,0

3. Sigurður Þorvaldsson, Snæfell 24,5

4. Lucious Wagner*, Snæfell 24,0

5. Arnar Freyr Jónsson, Grindavík 21,0

6. Jón Ólafur Jónsson, Snæfell 14,5

7. Páll Axel Vilbergsson, Grindavík 13,5

8. Helgi Jónas Guðfinnsson, Grindavík 9,5

9. Þorleifur Ólafsson, Grindavík 8,5

10. Atli Rafn Hreinsson, Snæfell 6,5

*Spilaði aðeins annan leikinn








Fleiri fréttir

Sjá meira


×