Íslenski boltinn

Ísland fær tvö sæti í Meistaradeild kvenna 2010/2011

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsstelpur verða með í Meistaradeildinni 2009 og 2010.
Valsstelpur verða með í Meistaradeildinni 2009 og 2010. Mynd/Stefán

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur staðfest að Ísland er ein átta þjóða sem fær úthlutað tveimur sætum í Meistaradeild kvenna fyrir keppnistímabilið 2010/2011. Ísland er í áttunda sæti yfir bestan árangur félagsliða í Evrópukeppni undanfarin fimm tímabil. Þetta kemur í frétt á heimasíðu KSÍ.

UEFA gaf út lista í dag þar sem þjóðunum er raðað niður eftir árangri og sem fyrr segir er Ísland í áttunda sæti listans, sætinu á undan Noregi. Aðrar þjóðir sem vinna sér inn tvö sæti í Meistaradeildinni eru: Þýskaland, Svíþjóð, Frakkland, Rússland, England, Danmörk og Ítalía.

Þetta þýðir að annað sætið í Pepsi-deild kvenna gefur þátttökurétt í Meistaradeild kvenna á næsta tímabili. Valur hefur þegar tryggt sér titilinn en baráttan um annað sætið er gríðarlega hörð því þrjú félög, Breiðablik, Þór/KA og Stjarnan, eru jöfn að stigum fyrir lokaumferðina sem fram fer um komandi helgi.

Valur er fulltrúi Íslands í Meistaradeildinni á þessu tímabili og framundan eru leikir við ítalska liðið Torres Calcio. Valsstúlkur leika fyrri leikinn á Ítalíu miðvikudaginn 30. september en síðari leikurinn verður hér heima, miðvikudaginn 7. október.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×