Íslenski boltinn

Grétar: Það er klassamunur á þessum liðum en það sást ekki í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grétar Sigfinnur Sigurðsson, fyrirliði KR.
Grétar Sigfinnur Sigurðsson, fyrirliði KR. Mynd/Pjetur

„Þetta eru mikil vonbrigði og hreinlega óásættanlegt," sagði Grétar Sigfinnur Sigurðsson, fyrirliði KR sem gat ekki leynt vonbrigðum sínum í leikslok eftir 0-1 tap á móti Fram í undanúrslitaleik bikarsins.

„Þetta var leikur sem hefði getað dottið báðum megin en það súrasta við það er að þetta er leikur sem ætti ekki að fara þannig. Við ættum að vera með mikið mikið betra lið. Það er klassamunur á þessum liðum en það sást ekki í dag," sagði Grétar.

„Þeir gerðu vel í því að sem þeir gera alltaf. Við vitum að þeir eru þéttir og þolinmóðir og reyna síðan að pota inn einu marki. Það gekk upp hjá þeim og það er klaufagangur hjá okkur að láta það gerast," sagði Grétar.

„Mesta klúðrið hjá okkur var að ná ekki að setja inn mörk. það voru nokkrir vafasamir dómar inn í teig fannst mér en það er ekki það sem klúðrar leiknum heldur það við erum ekki að skapa okkur meira af opnum færum," segir Grétar sem var samt ekki ósáttur við leik liðsins fyrir utan bitleysið í sókninni.

„Það var mikið í húfi og þetta var ekki þessi opni skemmtilegi leikur sem einhverjir bjuggust við. Menn vildu bara vinna og þannig taktík var spiluð," sagði Grétar.

KR-ingar eiga enn smá von um að verða Íslandsmeistarar en FH-ingar þurfa þá að halda áfram að tapa sínum leikjum. „Meðan vonin lifir þá höldum við í hana en það er ekki verið að horfa á það. Við erum að horfa á það að klára okkar verkefni og svo sjáum við til," sagði Grétar að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×