Körfubolti

ÍR-ingum létt eftir sigur á Akureyri

Hreggviður Magnússon, leikmaður ÍR.
Hreggviður Magnússon, leikmaður ÍR. Mynd/Daníel

"Þetta var heldur betur stór sigur," sagði Hreggviður Magnússon, ÍR-ingur, eftir 90-96 sigurinn á Þór á Akureyri í kvöld.

Honum virtist létt enda ÍR hársbreidd frá því að missa leikinn úr höndunum í lokin. "Þetta var stærsti leikurinn okkar til þessa, við þurftum að vinna hann til að halda sjötta sætinu með Beiðablik skammt undan," sagði Hreggviður.

"Við lögðum upp með að mæta einbeittir til leiks og við vissum að þeir myndu mæta grimmir líka, í þessari fallbaráttu sinni. Þeir settu góð skot og voru einbeittir í vörninni og það var oft erfitt að uppskera.

En við vorum þolinmóðir og lögðum upp með að finna opnu skotin, við vildum frekar senda aukasendingu en að reyna sjálfir. Að mínu mati fengum við mikið af þessum skotum og þetta gekk því upp," sagði Hreggviður sem neitar því að hafa fundið fyrir stressi undir lokin þegar Þór var kominn yfir.

"Nei, alls ekki. Það eru mörg lið sem eru að heyja mikla baráttu og það er ekki mikið á milli þessara liða. Það er algengt svona undir lok tímabils að leikirnir eru jafnir. Við höfum lent í því á síðustu mínútum leikja að vera örlítið undir eftir að hafa verið yfir, en leikurinn er 40 mínútur og maður spilar leikinn bara til enda," sagði Hreggviður.

Hann hlakkar til að mæta Grindavík á sunnudaginn og byrja síðan úrslitakeppnina. "Við höfum verið nokkuð öflugir í bikarkeppnum undanfarin ár og teljum okkur vera öfluga þegar við þurfum að standa okkur," sagði Hreggviður Magnússon að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×