Körfubolti

Hafa tapað fyrsta heimaleik í úrslitakeppni síðustu sex ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR hefur ekki unnið fyrsta heimaleik í úrslitakeppni síðan að Jón Arnór var síðast með.
KR hefur ekki unnið fyrsta heimaleik í úrslitakeppni síðan að Jón Arnór var síðast með. Mynd/Vilhelm

Deildarmeistarar KR-inga leika í kvöld sinn fyrsta leik í átta liða úrslitum úrslitakeppni Iceland Express deildar karla þegar þeir taka á móti Blikum í DHL-Höllinni. KR-liðið vonast þar til að breyta slæmum ávana undanfarinn ára því liðið hefur ekki unnið fyrsta heimaleik sinn í úrslitakeppni síðan árið 2002.

KR hefur einnig tapað fyrsta leik í úrslitakeppninni undanfarin þrjú ár og í öll skiptin hefur þessi leikur farið fram á heimavelli þeirra í DHL-Höllinni. KR-ingar unnu síðast fyrsta leik í úrslitakeppni 10. mars 2005 þegar þeir sóttu 89-91 sigur í Stykkishólm.

Það þarf að fara miklu lengur aftur til þess að finna sigur hjá KR-liðinu í fyrsta heimaleik sínum í úrslitakeppni. KR hefur tapað fyrsta heimaleik sínum í úrslitakeppni undanfarin sex tímabil þar af hefur það verið annar leikur liðsins í úrslitakeppni í tvö skipti.

Það ætti líka að færa KR-liðinu sjálftraust að vita af Jóni Arnóri Stefánssyni með í för því síðasti sigur KR í fyrsta heimaleik sínum í úrslitakeppni var einmitt þegar Jón Arnór var síðast með liðinu í þeirri stöðu. Jón Arnór var þá með 19 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar í 91-87 sigri á Hamar 14. mars 2002.

Það ætti að vera óhætt fyrir KR-inga að fara bjartsýnir inn í einvígið á móti Blikum enda unnu þeir leiki liðanna í deildinni í vetur með samtals 69 stigum þrátt fyrir að hvorki Jón Arnór Stefánsson né Helgi Már Magnússon hafi spilað með í seinni leiknum.

Fyrsti heimaleikur KR í úrslitakeppni karlakörfunnar:

2008 ÍR (Leikur 1) 76-85 tap

2007
ÍR (Leikur 1*) 65-73 tap

2006
Snæfell (Leikur 1*) 68-71 tap

2005 Snæfell (Leikur 2) 57-82 tap

2004
Grindavík (Leikur 2) 95-108 tap

2003
Njarðvík (Leikur 1) 87-90 tap

2002 Hamar (Leikur 1*) 91-87 sigur

* KR komast áfram í undanúrslit






Fleiri fréttir

Sjá meira


×