Íslenski boltinn

Guðbjörg verður í markinu á móti Dönum á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir fær tækifæri á móti Dönum á morgun.
Guðbjörg Gunnarsdóttir fær tækifæri á móti Dönum á morgun. Mynd/Stefán

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í fótbolti, tilkynnir ekki byrjunarlið sitt í æfingaleik á móti Dönum fyrr en í kvöld en þjóðirnar mætast á Englandi á morgun. Það er löngu ákveðið að Guðbjörg Gunnarsdóttir verður í markinu en Þóra Björg Helgadóttir var í markinu á móti Englandi.

„Þær fá sitthvorn leikinn í þessari ferð. Ég tilkynnti öllum hópnum það að við myndum láta Þóru spila fyrri leikinn og Guðbjörgu seinni leikinn. Við búum að því að eiga tvo frábæra markmenn og ég skildi líka eftir tvo til þrjá frábæra markmenn heima. Að minnsta kosti einn markmaður þar bætist inn í lokakeppnishópinn," segir Sigurður Ragnar.

„Þær eru báðar búnar að spila það vel með sínum félagsliðum og það líka erfiðara að fylgjast með þeim þegar þær eru erlendis. Við vildum því gefa þeim sitthvorn leikinn og síðan verðum við bara að sjá hvernig þær standa sig," segir Sigurður Ragnar.

Þóra stóð sig frábærlega í leiknum á móti Englandi, hélt marki sínu hreinu og var mjög örugg í sínum aðgerðum. Sigurður Ragnar viðurkennir alveg að það verði mjög erfitt fyrir sig að velja hvor þeirra stendur í markinu á EM í Finnlandi.

„Það er hluti að starfinu að taka erfiðar ákvarðanir og fyrir það fær maður víst borgað. Þetta verður alltaf ákvörðun sem verður umdeild, hvorn markmanninn sem maður velur," segir Sigurður Ragnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×