Íslenski boltinn

Eina taplausa lið landsins heimsækir Valsmenn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dean Martin, spilandi þjálfari KA-liðsins.
Dean Martin, spilandi þjálfari KA-liðsins.

Valur tekur á móti KA í VISA-bikar karla í fótbolta í kvöld en Akureyrarliðið er eina karlalið landsins sem hefur ekki tapað leik í sumar. Leikur liðanna í 16 liða úrslitunum hefst klukkan 18.00 á Vodafone-vellinum á Hlíðarenda.

KA er í þriðja sæti 1. deildarinnar eftir 4 sigra og 5 jafntefli í fyrstu níu leikjum sínum. Markatala KA í þessum níu leikjum er 13-5 þeim í hag. KA-menn eru síðan búið að vinna báða bikarleiki sína í sumar, fyrst 4-1 sigur á Dalvík/Reyni og svo 3-1 sigur á Aftureldingu í 32 liða úrslitunum.

Atli Eðvaldsson stjórnar Val í fyrsta sinn en hann mætti á sína fyrstu æfingu með Valsliðinu í gær. Atli Eðvaldsson tók síðast þátt í Valsleik þegar hann spilaði með liðinu á móti Fram á Hlíðarenda 17. ágúst 1989 eða fyrir tæpum tuttugu árum.

Atli meiddist á baki í leiknum og lék ekkert meira með á tímabilinu. Hann fór síðan út í atvinnumennsku til Tyrklands um haustið og samdi síðan við KR þegar hann kom aftur til Íslands vorið eftir. Hann snýr því á Hlíðarenda eftir tæpa tvo áratugi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×