Körfubolti

Vill ekki þurfa að horfa upp á Keflavíkurglottið

Magnús Gunnarsson kærir sig ekki um að tapa fyrir fyrrum félögum sínum í kvöld
Magnús Gunnarsson kærir sig ekki um að tapa fyrir fyrrum félögum sínum í kvöld

"Við viljum auðvitað ekkert fara í sumarfrí um miðjan mars, svo það kemur ekkert annað til greina en að vinna í kvöld," sagði Magnús Gunnarsson leikmaður Njarðvíkur þegar Vísir náði tali af honum fyrir leik Njarðvíkur og Keflavíkur í kvöld.

Grannliðin mætast öðru sinni í fyrstu umferðinni í Iceland Express deildinni í Njarðvík í kvöld þar sem Keflvíkingar geta tryggt sig í undanúrslitin eftir 96-88 sigur í fyrsta leiknum í Keflavík í fyrrakvöld.

Magnús Gunnarsson þekkir Keflavíkurliðið vel eftir að hafa spilað með því um árabil og hann langar ekki að horfa framan í fyrrum félaga sína ef Njarðvíkurliðið tapar í kvöld.

"Ég vil ekki horfa framan í smettið á þessum mönnum sem ég spilaði með öll þessi ár ef við töpum aftur og því verðum við að vinna tvo í röð. Nú veit ég hvernig andstæðingum okkar í Keflavík leið að horfa upp á glottið á okkur öll þessi ár," sagði Magnús í gamansömum tón.

Hann segir Njarðvík eiga mikið inni fyrir leikinn í kvöld eftir að margt fór úrskeiðis hjá liðinu í fyrsta leiknum.

"Þeir tóku miklu fleiri skot en við og við töpuðum 26 boltum, en samt unnu þeir okkur með svona litlum mun. Keflavík er með gott varnarlið en ekki svona gott. Við vorum bara of stífir og ég var allt of yfirspenntur í fyrsta leiknum. Þetta hefur aldrei komið fyrir mig áður og ég skil ekkert í þessu. Kannski var það bara af því ég var að spila á móti þessum strákum sem ég spilaði með öll þessi ár og gegn þjálfara sem ég ber mikla virðingu fyrir," sagði Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×