Körfubolti

Grindavík vann í Keflavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Freyr Jónsson og félagar í Grindavík unnu góðan sigur á Keflavík í kvöld.
Arnar Freyr Jónsson og félagar í Grindavík unnu góðan sigur á Keflavík í kvöld. Mynd/Stefán
Grindavík vann nauman sigur á Keflavík í Bítlabænum í kvöld, 85-82, eftir æsispennandi lokamínútur.

Alls fóru þrír leiki fram í Iceland Express deild karla í kvöld. Snæfell vann ÍR á útivelli, 82-76 og FSu vann mikilvægan sigur á Breiðabliki í Kópavoginum, 96-77.

Grindavík var með frumkvæðið í leiknum lengst af eftir að hafa náð fjögurra stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 28-23. Staðan í hálfleik var svo 50-46 og Grindavík hafði fimm stiga forystu þegar fjórði leikhluti hófst, 70-65.

Fjórði leikhluti var æsispennandi en Keflavík náði að jafna metin þegar þrjár mínútur voru eftir þökk sé körfu frá Jóni Nordal Hafsteinssyni.

En þá settu Grindvíkingar niður tvo þrista á næstu mínútunni. Fyrst Brenton Birmingham og svo Arnar Freyr Jónsson, fyrrum leikmaður Keflavíkur.

Gunnar Einarsson svaraði fyrir Keflavík með öðrum þristi en leikurinn virtist úti þegar Grindavík komst í fjögurra stiga forystu þegar hálf mínúta var eftir.

Eftir að Keflavík minnkaði muninn í tvö stig klikkaði hins vegar Arnar Freyr á tveimur vítaköstum í röð og Keflavík fékk boltann. Sverrir Sverrisson reyndi þriggja stiga skot en það geigaði.

Í kjölfarið var aftur brotið á Arnari og í þetta sinn nýtti hann síðara vítaskotið. Munurinn því þrjú stig, Keflavík með boltann og tvær sekúndur eftir. Gunnar Einarsson reyndi þriggja stiga skot en aftur geigaði það. Niðurstaðan því sigur gestanna úr Grindavík.

Brenton skoraði átján stig fyrir Grindavík, Páll Axel Valbergsson fimmtán og Nick Bradford fjórtán.

Hjá Keflavík var Sigurður Þorsteinsson stigahæstur með 22 stig. Hörður Axel Vilbergsson skoraði 20 stig, Gunnar sautján og Sverrir fimmtán.

Grindavík er tveimur stigum á eftir KR sem er í efsta sæti deildarinnar með 24 stig. Snæfell er í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig, tveimur meira en Keflavík sem er í fjórða sæti.

Breiðablik, ÍR, Tindastóll og FSu eru svo öll með fjórtán stig í 7.-10. sæti deildarinnar og því útlit fyrir spennandi lokasprett í deildinni um síðustu sætin í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×