Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði niður fyrir 40 dollara á tunnuna á markaðinum í New York í dag. Kom þetta í kjölfar nýrra talna um atvinnuleysi í Bandaríkjunum.
Tölurnar um atvinnuleysið eru þær verstu í sögu Bandaríkjanna síðan árið 1945. Alls misstu um 524.000 manns vinnuna í desember s.l.. Þar með hafa tæplega 2,6 milljónir Bandaríkjamanna misst vinnu sína á síðasta ári.
Um leið og tölurnar urðu opinberar féll olíuverðið um 4,4% og niður fyrir 40 dollara. Nú síðdegis hefur verðið verið að sveiflast í kringum rétt rúmlega 40 dollara.