Íslenski boltinn

Sigurður Ragnar sá frönsku stelpurnar steinliggja á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kvennalandsliðsins.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kvennalandsliðsins. Mynd/Daníel

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kvennalandsliðsins, var á meðal áhorfenda um helgina þegar Frakkar, verðandi mótherjar íslenska liðsins á EM, steinlágu 0-4 á heimavelli á móti Japönum.

Á heimasíðu KSÍ er fjallað um leikinn og þar kemur fram að japanska liðið sé eitt það alsterkasta í heiminum og að áður höfðu þær gert markalaust jafntefli gegn Heims- og Evrópumeisturum Þjóðverja.

„Landsliðsþjálfari Frakka var þó hvergi banginn eftir þessi úrslit. Hann sagði að sitt lið hefði verið á erfiðum æfingum undanfarið og það hafi sýnt sig í þessum leik. Allt kapp verði lagt á að liðið verði í toppstandi þegar það mæti íslenska liðinu í Tampere, mánudaginn 24. ágúst," segir í frétt um leikinn.

Íslenska liðið mætir Frökkum í fyrsta leik sínum á EM í Finnlandi en þjóðirnar voru eins og kunnugt er saman í riðli í undankeppninni. Ísland vann þá heimaleikinn 1-0 en tapaði útileiknum 1-2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×