Körfubolti

Mætast í fyrsta sinn í tólf ár í úrslitakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Einarsson var með Keflavík í síðasta einvígi á móti KR fyrir tólf árum.
Gunnar Einarsson var með Keflavík í síðasta einvígi á móti KR fyrir tólf árum. Mynd/Vilhelm

KR og Keflavík hefja undanúrslitaeinvígi sitt í Iceland Express deild karla í dag þegar fyrsti leikurinn fer fram í DHL-Höllinni í Frostaskjólinu. Bæði félög hafa verið með öll árin í úrslitakeppninni frá því að hún var stækkuð 1995 en eru samt bara að mætast í þriðja sinn á þessum tíma þar af í fyrsta sinn síðan 1997.

KR-ingar hafa sem dæmi mætt Njarðvíkingum sjö sinnum og Grindvíkingum þrisvar sinnum frá því að þær lentu síðast á móti Keflavík í undanúrslitaeinvíginu árið 1997. Keflavík vann það einvígi 3-1 sem og þegar liðin mættustu árið á undan í átta liða úrslitum.

KR og Keflavík hafa alls mæst sex sinnum í úrslitakeppni þar af tvisvar sinnum í lokaúrslitum (1989 og 1990). KR hefur aðeins unnið eitt þessara einvíga eða þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn 1990 með 3-0 sigri á Keflavík í lokaúrslitunum.

Keflavík hefur unnið fjögur einvígi liðanna í röð síðan þá og samtals 11 af 19 leikjum liðanna í úrslitakeppni. Leikurinn í dag verður fyrsti leikur liðanna í DHL-Höllinni í úrslitakeppninni en þau hafa mæst 11 sinnum í Keflavík, sex sinnum á Seltjarnarnesinu, einu sinni í Hagaskóla og einu sinni í Laugardalshöllinni.

Einvígi KR og Keflavíkur í sögu úrslitakeppni karla:

Lokaúrslit 1989: Keflavík 2-1 KR {77-74, 85-92, 89-72}

Lokaúrslit 1990: KR 3-0 Keflavík {81-72, 75-71, 80-73}

Undanúrslit 1991: Keflavík 2-1 KR {71-84, 92-75, 86-80}

Undanúrslit 1992: Keflavík 2-1 KR {80-75, 72-73, 87-73}

8 liða úrslit 1996: Keflavík 2-1 KR {81-79, 77-79, 83-77}

Undanúrslit 1997: Keflavík 3-1 KR {93-77, 93-103, 113-59, 100-95}






Fleiri fréttir

Sjá meira


×