Körfubolti

Hlynur: Subasic var orðinn baggi á okkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hlynur var ekki ánægður með Subasic.
Hlynur var ekki ánægður með Subasic. Mynd/Stefán

„Ástandið var orðið þannig að hann var orðinn baggi á okkur í stað þess að vera styrkur. Það var ekki hægt að una lengur við óbreytt ástand og þess vegna ákváðum við að reka hann. Við teljum okkur eiga meiri möguleika án hans gegn Grindavík en með honum," sagði Hlynur Bæringsson, annar þjálfari Snæfells, um uppsögn Slobodan Subasic hjá Snæfelli.

Tíðindin komu nokkuð á óvart en samt ekki þar sem Subasic hefur verið afspyrnuslakur með Snæfellsliðinu.

„Þetta er ágætis náungi en hann hefur verið eitthvað illa upplagður lengi. Þessi neikvæðni í kringum hann hafði staðið yfir svo vikum skipti og þetta gekk einfaldlega ekki lengur," sagði Hlynur en hvað var það nákvæmlega við hegðun Subasic sem var svona slæm?

„Hann var bara í fýlu og með almenna neikvæðni. Það var reynt að tala við hann en það skilaði engu. Hann kom ágætlega fram við okkur þjálfarana en sýndi mörgum öðrum leikmönnum óvirðingu. Sérstaklega þeim sem hann fannst vera á eftir sér í goggunarröðinni. Ekki veit ég hvaða hann fékk það," sagði Hlynur og bætti við.

„Honum fannst strákarnir ekki heldur sýna sér virðingu. Svo kvartaði hann yfir of litlum spiltíma hjá sér og fannst að ungu strákarnir spiluðu of mikið. Hann hefur einfaldlega ekki staðið sig eins og atvinnumaður og þess vegna var hann látinn fara."

Aðspurður um hver ábyrgð þjálfaranna væri, af hverju þeir hefðu ekki tekið fyrr í taumana, sagði Hlynur.

„Það eru kannski mistök að hafa ekki gert þetta fyrr. Hefðum við samt gert það hefðum við líklega verið sakaðir um að gefa honum ekki tækifæri. Við verðum ekki sakaðir um það. Þetta fór samt hríðversnandi og var ekki boðlegt lengur," sagði Hlynur Bæringsson.

Þriðji leikur Snæfells og Grindavíkur í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla fer fram i Grindavík á morgun. Grindavík leiðir einvígið 2-0 og getur komist í úrslitaeinvígið með sigri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×