Körfubolti

Páll Axel verður ekki með Grindavík í kvöld

Páll Axel er hér á fullri ferð í síðari leiknum gegn ÍR í Seljaskóla í fyrstu umferðinni
Páll Axel er hér á fullri ferð í síðari leiknum gegn ÍR í Seljaskóla í fyrstu umferðinni Mynd/Rósa

Körfuknattleikslið Grindavíkur hefur orðið fyrir blóðtöku á versta mögulega tíma. Páll Axel Vilbergsson er meiddur á hné og getur ekki spilað með liðinu í fyrsta leiknum gegn Snæfelli í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar í Grindavík í kvöld.

Hnéð hefur verið að stríða Páli að undanförnu og var hann með tognuð liðbönd, en á æfingu á föstudaginn tóku sig upp ný meiðsli í hnénu sem gera það að verkum að stórskyttan getur ekki spilað í kvöld.

"Það gerðist eitthvað í hnénu á mér á föstudaginn og ég er bara óleikfær eftir það. Ég fór í sprautu í morgun en það virkaði ekkert og ég er enn með verk. Ég fer í myndatöku í fyrramálið þar sem kemur vonandi í ljós hvað þetta er," sagði Páll Axel í samtali við Vísi.

Hann er vitanlega skúffaður yfir tímasetningu meiðslanna. "Ég er svo sem ekkert smeykur við hvað þetta er, því ég held að þetta sé ekki alvarlegt, en tímasetningin er fáránleg," sagði Páll Axel, sem sagði ómögulegt að segja til um framhaldið fyrr en eftir myndatöku.

Páll Axel er annar Grindvíkingurinn sem lendir í basli með meiðsli á stuttum tíma, en skemmst er að minnast hrakfara Nick Bradford þegar hann fór til læknis fyrir nokkrum dögum. Páll segir Bradford á góðum batavegi.

"Nick er allur að koma til. Hann hvíldi sig vel eftir þetta og hefur tekið þátt í æfingum með okkur. Það hefði verið verst ef þeir hefðu þurft að víra saman á honum kjálkann, því þá hefði hann ekki geta rifið kjaft. Þá er alveg eins hægt að hafa hann uppi í stúku. Hann var meira að segja búinn að búa sig undir það versta og skrifa miða handa okkur svo við gætum rifið kjaft fyrir hann ef á þyrfti að halda," sagði Páll Axel léttur í bragði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×