Körfubolti

Jón, Jakob og Helgi sjóðheitir á móti Keflavík í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson hefur hitt úr 62,5 prósent þriggja stiga skota sinna á móti Keflavík í vetur.
Jón Arnór Stefánsson hefur hitt úr 62,5 prósent þriggja stiga skota sinna á móti Keflavík í vetur. Mynd/Vilhelm

KR og Keflavík hefja undanúrslitaeinvígi sitt í Iceland Express deild karla í dag þegar fyrsti leikurinn fer fram í DHL-Höllinni í Frostaskjólinu. Þetta verður fimmti leikur liðanna í vetur og hefur KR unnið hina fjóra.

KR-ingarnir og jafnaldrarnir Jón Arnór Stefánsson, Jakob Örn Sigurðarson og Helgi Már Magnússon hafa verið sjóðheitir fyrir utan þriggja stiga línuna í þessum fjórum leikjum.

Þeir hafa saman sett niður 40 þriggja stiga skot úr aðeins 71 tilraun. Það gerir 10 þrista að meðaltali í leik og 56,3 prósent skotnýtingu hjá þremur leikmönnum KR.

Jón Arnór Stefánsson hefur hitt úr 15 af 24 þriggja stiga skotum sínum sem gerir 62,5 prósent þriggja stiga skotnýtingu og 3,8 þrista að meðaltali í leik.

Helgi Már Magnússon hefur hitt úr 14 af 25 þriggja stiga skotum sínum sem gerir 56,0 prósent þriggja stiga skotnýtingu og 3,5 þrista að meðaltali í leik.

Jakob Örn Sigurðarson hefur hitt úr 11 af 22 þriggja stiga skotum sínum sem gerir 50 prósent þriggja stiga skotnýtingu og 2,8 þrista að meðaltali í leik.

Allt Keflavíkurliðið hefur "aðeins" hitt úr 25,8 prósent þriggja stiga skotum sínum en liðið hefur sett niður 24 af 93 þriggja stiga skotum sínum. Aðrir KR-ingar en þeir Jón, Jakob og Helgi hafa reyndar bara hitt úr 9 af 40 þriggja stiga skotum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×