Fótbolti

Kristján: Ef til vill klaufalegt að falla ekki strax til baka

Ómar Þorgeirsson skrifar
Kristján Örn Sigurðsson.
Kristján Örn Sigurðsson.

Það mæddi mikið á íslensku vörninni í 1-2 tapinu gegn Hollendingum í kvöld, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. En þeir stóðu vaktina þó vel og börðust um hvern einasta bolta gegn afar sterku hollensku liði.

„Þeir eru náttúrulega frábært fótboltalið en við ætluðum að reyna að falla ekki of aftarlega eins og gerðist í leiknum í Rotterdam en þeir náðu að refsa okkur illilega strax í byrjun. Við náðum einhvern veginn ekki að komast nógu nálægt þeim og vorum alltof götóttir þannig að þeir spiluðu bara í gegnum okkur og yfirspiluðu okkur á löngum köflum í fyrri hálfleiknum. Ef til vill var það klaufalegt hjá okkur að falla bara ekki strax til baka en við vildum ekki gera það," segir varnarjaxlinn Kristján Örn sem átti góðan leik, eins og svo oft áður og skoraði mark Íslands í leiknum.

„Við gerðum smá breytingar hjá okkur í hálfleik og náðum að þétta þetta aðeins á miðjunni og þá náðum við að komast nær þeim og þetta varð þá allt annað og miklu skárra hjá okkur," segir markaskorarinn.

„Já, það er alltaf gaman þegar varnarmaður skorar en það er skemmtilegra þegar það hefur eitthvað að segja og telur eitthvað," segir Kristján Örn að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×