Íslenski boltinn

Atli Guðnason: Er það léttur að ég næ ekkert að standa þetta af mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason.
Atli Guðnason.
„Þetta var mjög góður leikur hjá okkur. Það var frábær varnarvinna hjá öllu liðinu og heilt yfir var þetta frábær leikur hjá okkur," sagði FH-ingurinn Atli Guðnason eftir 4-0 sigur FH á KR í bikarúrslitaleiknum í kvöld.

Atli Guðnason fiskaði vítið sem gaf fyrsta markið og var örugglega umdeildasti leikmaður FH-liðsins í herbúðum KR-inga. En var þetta víti?

„Já þetta var víti. Ég er það léttur og þegar menn fara utan í mig þá bara dett ég. Ég er það léttur að ég næ ekkert að standa þetta af mér," sagði Atli sem féll eftir viðureign við Skúla Jón Friðgeirsson.

„Við höfðum alltaf trú á því að vinna þennan leik en 4-0 sigur er kannski fullmikið af því góða," sagði Atli Guðnason um stórsigurinn á KR.

„Það var gaman að skora undir lokin en ég vissi nú reyndar ekki að ég væri að fara beint útaf eftir markið. það var mjög gaman að skora og fá svo heiðursskiptinguna undir lokin," sagði Atli sem var líka mjög ánægður með seinni hálfleikinn.

„Þetta er besti hálfleikur sem við höfum spilað í sumar og ég er hrikalega ánægður með þetta. Við vitum alveg hvað við getum. Þegar líður á leikina þá fáum við alltof okkar tækifæri og við nýtum þá," sagði Atli að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×