Íslenski boltinn

Aron Einar: Þeir eru hræddir við okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Mynd/Vilhelm
Aron Einar Gunnarsson segir að það sé góð stemning í íslenska U-21 liðinu fyrir leikinn mikilvæga gegn Skotum í dag.

Ísland vann fyrri leik þessara liða á fimmtudaginn, 2-1, en sigurvegarinn í rimmunni kemst í úrslitakeppni EM á næsta ári. Íslandi dugar því jafntefli í kvöld en búast má við að Skotar verði sterkari á heimavelli í kvöld en þeir voru á Laugardalsvellinum á fimmtudaginn síðastliðinn.

„Þetta verður reynsla fyrir okkur strákana," sagði Aron Einar. Hann er óhræddur við þá tilhugsun að á vellinum verði um fimmtán þúsund öskrandi Skotar í stúkunni.

„Við erum nokkrir sem spilum fyrir framan 20 þúsund manns í hverri viku. En þetta er landsleikur og ákveðið stolt sem fylgir því að spila þannig leiki. Þetta verður fyrst og fremst gaman og þó svo að þeir verði með áhorfendur á sínu bandi reikna ég ekki með að það breyti þeirra leikstíl mikið."

„Við erum með betra lið en þeir. Við erum með betri fótboltamenn. Ef okkur tekst að komast í úrslitakeppnina væri það stór stund fyrir íslenska knattspyrnu. Ég finn að fólkið heima er stolt af okkur og styður okkur heilshugar. Það eigum við að nýta okkur og við eigum að klára þetta."

„Ég segi einfaldlega að ef þér tekst ekki að gíra þig upp fyrir svona leik þá áttu ekki að vera í fótbolta. Þetta er það stór leikur. Ef þú ert ekki klár í slaginn þá er eitthvað að."

Hann reiknar jafnvel með því að meiri harka verði í leiknum í kvöld en á fimmtudaginn.

„Það gæti verið. Kannski eiga þeir eftir að brjóta meira á okkur en þá erum við með Gylfa og Jóa sem geta tekið aukaspyrnur. Gylfi skorar úr aukaspyrnum í nánast hverjum einasta leik. Við höfum því ekki miklar áhyggjur af því enda eigum við alltaf eitthvað í pokahorninu."

„Við munum, eins og í fyrri leiknum, eftir að leggja upp með að sækja mikið upp kantana. Ég finn að þeir eru hræddir við okkur. Maður sér það á því hvernig þeir tala í blöðunum. Þeir segja að við séum með betra lið og að þeir muni reyna að vinna 1-0. En við eigum eftir að skora á morgun - ef mark þá mörk. Það er pottþétt."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×