Íslenski boltinn

KR-ingar Lengjubikarmeistarar eftir 2-1 sigur á Blikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingar eru búnir að vinna tvo titla á þessu ári.
KR-ingar eru búnir að vinna tvo titla á þessu ári. Mynd/Daníel

KR-ingar eru Lengjubikarmeistarar eftir 2-1 sigur á Blikum í úrslitaleiknum í Kórnum í dag. Þetta er í fjórða sinn sem KR vinnur deildabikarinn en félagið vann hann einnig 1998, 2001 og 2005. Blikar hafa hinsvegar tapað öllum þremur úrslitaleikjum sínum í deildabikarnum og þurftu að sætta sig við silfrið í keppninni annað árið í röð.

KR-ingar skoruðu bæði mörkin sín í lok fyrri hálfleiks, það fyrra skoraði Björgólfur Takefusa á 43. mínútu eftir sendingu Jordao Diogo en það síðara skoraði Mark Rutgers í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Kári Ársælsson minnkaði muninn fyrir Blika á 63. mínútu en Blikar léku manni færri síðustu 14 mínútur leiksins eftir að Elfar Freyr Helgason fékk sitt annað gula spjald.

Blikar hvíldu þrjá lykilmenn í þessum leik, framherjana Alfreð Finnbogason og Guðmund Pétursson og svo miðjumanninn Guðmund Kristjánsson. Þeir eiga allir við smávægileg meiðsli að stríða.

KR-ingar unnu því bæði vormótin í ár en þeir voru einnig Reykjavíkurmeistarar eftir 3-2 sigur á Víkingum á dögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×