Íslenski boltinn

Grótta leyfði Þrótti að skora - "Var kannski of bráður á mér"

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Úr leik Gróttu og ÍR fyrr í sumar.
Úr leik Gróttu og ÍR fyrr í sumar. Fréttablaðið/Stefán
Skrýtið atvik átti sér stað í leik Þróttar og Gróttu í VISA-bikar karla í gær. Gróttumenn leyfðu þá Þrótti að skora mark eftir að hafa skorað sjálfir, en án þess að sýna drengskap og háttvísi eins og gert er ráð fyrir í knattspyrnu.

Elvar Freyr Arnþórsson heitir maðurinn sem skoraði mark Gróttu í 3-1 tapinu en hann kom liðinu yfir eftir 36. mínútur. Vísir hafði samband við Elvar og fékk að heyra söguna frá honum sjálfum.

„Það kemur hár bolti inn fyrir vörnina og ég enda í kaupphlaupi við varnarmann Þróttar. Ég fæ olnbogaskot í andlitið, sem var óviljaverk, og leikurinn er stöðvaður vegna höfuðmeiðsla."

„Svo stend ég upp og horfi á dómarann sem heldur á boltanum. Ég spyr hann hvað er að fara að gerast og hann segir að það verður dómarakast. Leikmaður Þróttar stendur hjá en færir sig svo," sagði Elvar en Þróttarinn beið þess væntanlega að fá sendingu frá Elvari þar sem Þróttur var með boltann þegar leikurinn var stöðvaður.

„Ég tók svo bara boltann, keyrði á þetta og skoraði," sagði Elvar en leikmenn og stuðningsmenn Þróttar hreinlega trylltust af bræði. „Ég fagnaði ekki mikið, lyfti hendinni en hljóp svo bara til baka," segir Elvar.

„Ég var kannski aðeins of bráður á mér, ég sé eftir á að þetta var ekki rétt. Þetta var svolítið „dirty" mark," sagði Elvar kíminn.

Grótta ákvað að leyfa Þrótturum að skora og það gerði Halldór Hilmisson, en enginn leikmaður Gróttu fór í hann og liðið leyfði honum því að skora.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×